mánudagur, nóvember 17, 2008

Síðbúin, eða síðbirt, hugleiðing um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.

Barry Goldwater hafði rétt fyrir sér. Brjálaða biblíuliðið eyðilagði Repúblikanaflokkinn.

Það er allt í lagi með það þegar fólk hefur svona "alþýðlegt brjóstvit" eins og Sarah Palin, en þegar þeir vitsmunir standa einir, og hina hefðbundnari, "harðari" tegund vitsmuna vantar, er viðkomandi ekki til þess fallinn að gegna embætti á borð við varaforseta BNA.

Bandarískir kjósendur þurftu að spyrja sig þeirrar spurningar hvort það væri skynsamlegt að þurfa að treysta á heilsu 72 ára fyrrum krabbameinssjúklings til að koma í veg fyrir að yfirmaður fullkomnasta herafla í heimi verði sveitalubbi sem m.a. veit ekki að Afríka er heimsálfa, ekki land.

Vegna aldurs McCain var varaforsetaefni hans mjög mikilvægt, mun mikilvægara en hjá Obama. Ef hann hefði valið einhvern skárri, einhvern sem fólk hryllir ekki við tilhugsunina um að verði forseti, hefði útkoman e.t.v. orðið önnur.

Ef valið hefði verið milli t.d. McCain/Sununu og Obama/Biden, leyfi ég mér að fullyrða að staðan væri önnur nú, eða a.m.k. hefði slagurinn verið tvísýnni.

Og eftir stendur að sá flokkur sem á 19. öld var með eina nútímalegustu stefnu allra stjórnmálaafla, Repúblikanaflokkurinn, er búinn að drabbast niður á það stig að vera athvarf fyrir fáfrótt, inngift, ofsatrúað hjólhýsahyski.
Nú er hún Snorrabúð stekkur. >

|

miðvikudagur, október 29, 2008

Og allir saman nú...

Andinn í þjóðfélaginu í hnotskurn.
(Texti hér.)

|

þriðjudagur, júlí 24, 2007

Sein und Moralvorstellung

Það er okkur öllum sameiginlegt að það sem skilgreinir okkar tilvist er það að við erum einstaklingar. Ég er ekki margir einstaklingar. Aðeins einn. Slíkt hið sama gildir um þá sem þetta kunna að lesa.

Ef við samþykkjum þessa fullyrðingu, að hver einstaklingur sé aðeins einn einstaklingur, en ekki margir, vakna ákveðnar spurningar um það hvað það þýðir að vera einn, en ekki margir.

Þýðingin er meðal annars sú að heimurinn snýst í kringum mann. Maður getur ekki séð veröldina með annars manns augum. Kringumstæður manns hljóta að vera túlkaðar út frá manns eigin forsendum.

Einnig er þýðingin sú að maður er máttlaus. Maður er einn og maður er takmarkaður.

Svo sannarlega getur einn maður aðeins gert tilvist ákveðins fjölda fólks bærilegri, svo sannarlega getur einn maður aðeins aðstoðað ákveðinn fjölda fólks, og það sem meira er, einn maður getur aðeins sett sig tilfinningalega í spor ákveðins fjölda fólks.

Það sem ég er í rauninni að fara með þessu er að með því að ætla að gera alla hamingjusama, finna upp eða koma í kring einhverju skipulagi eða byltingu sem umlykur alla heimsbyggðina sterku, hlýju faðmlagi góðs vilja og mannvináttu, áorkar maður ákaflega litlu gagnvart þeim sem eru manni fjarri, og á sama tíma á maður á hættu að vanrækja þá sem standa manni næst. Geta manns í þessum efnum takmarkast nefnilega af tilvist manns sjálfs sem einstaklings.

Þetta er ein af ástæðum þess að ég er einstaklingshyggjumaður. Það að ætla að berja á vandamálum alls heimsins með einhverju óljósu barefli, eins konar mórölskum kodda, er í senn heimskulegt og beinlínis hjákátlegt miðað við þau tækifæri sem felast í því að geta beitt sér af alvöru gagnvart því sem stendur manni nærri og þarfnast stuðnings.

Ef manni er svo umhugað um velferð annarra er það “dulce et decorum” að láta fjölskyldu sína og ástvini njóta krafta manns, ekki óljósa hagsmuni óljóss fólks.

Því fólk sem er langt í burtu og maður þekkir ekki er gagnvart manni óljóst. Og næsta nágrenni manns er í flestum tilvikum slíkt að venjulegur einstaklingur á fullt í fangi með það, jafn skýrt (eða óskýrt) og það kann að vera.

Þegar maður skilgreinir eigin pólitískar skoðanir er því fásinna að segjast hafa í huga hagsmuni heildarinnar. Slíkt er ómögulegt og hreinn barnaskapur, sem kemur frá fólki sem metur viðurkenningu fjarlægra einstaklinga of mikils og nýtur hennar of mikið, og fylgispekt við slíka fásinnu er algengur misskilningur meðal þess fólks sem ekki hefur íhugað það sem í henni felst, þ.e. ábyrgðarleysi gagnvart þeim kringumstæðum sem gjarnan eru nefndar “The Human Condition”, og fullkomið skilningsleysi sem beinist í senn að tilvist mælandans og þeirra sem á hlýða

Slíkur góðvilja-drullukökuleikur er fyrir neðan virðingu hugsandi fólks, líkt og svo mörg önnur dæmi um hræsni og kjánaskap sem felast í nútímalýðræði.


|

miðvikudagur, júní 06, 2007

Jafnaðarmennska

Hugmyndir um “jöfn tækifæri” eru að mínu mati útópískt þvaður sem byggist á því að fólk eigi sér engan bakgrunn
Fólk sem er alið upp fáfrótt í skítugum holum af ofbeldisfullum perrum hefur einfaldlega ekki sömu tækifæri og fólk sem er alið upp við eðlilegri, afslappaðri aðstæður.

Bakgrunnur og uppeldi hefur mikið að segja varðandi tækifæri manns. Það er einu sinni svo að það er enginn vandi að eyðileggja fólk meðan það er börn og gera það að aumingjum. En ef það ætti að gera alla “jafna” á þennan hátt þyrfti helst að taka öll börn frá foreldrum sínum og hrúga inn á sama barnahælið. Það eru kenningar sem áttu sér jú fylgi í frönsku byltingunni.

Stéttaskipting og ójöfnuður er því staðreynd sem ekki verður haggað nema gripið sé til mjög harðneskjulegra aðgerða sem flestir væru nú á dögum mjög á móti.

|

þriðjudagur, maí 08, 2007

Lífsreynsla

Klukkan er 16:30. Undirritaður situr í makindum á skrifstofu sinni miðsvæðis í Reykjavík, sötrar espressó og kreistir gula “stressboltann” sinn, sem er úr gúmmíi en eigandi hans ímyndar sér að sjáfsögðu að hann sé jarðarkringlan sjálf.

Síminn hringir, og undirritaður tekur upp tólið.
Ú.S.: “Fasteignasalan Borgir, góðan dag. Úlfur hér.”
B: “já, er “X” við?”
Ú.S.: “ Því miður ekki, "X" hefur ekki unnið hér í nokkur ár.”
B: “Nú jæja. Ég er sko að hringja fyrir Framsóknarflokkinn, og er að reyna að ná í félagsmenn…"
Ú.S.: “…”
B: "...Ert þú nokkuð framsóknarmaður?”

Samkeppni:
Notið ímyndunaraflið til að ljúka samtalinu í kommentakerfinu hér fyrir neðan. Sigurvegarinn hlýtur að launum gulan "stressbolta".

|

mánudagur, maí 07, 2007

Kosningar

Sjálfstæðisflokkurinn inniheldur of margs konar skoðanir. Þegar flokkur er svo stór að innan vébanda hans séu í senn kristilegir íhaldsfauskar sem eru á móti fóstureyðingum (t.d. Árni Johnsen og fleiri sem eru, ólíkt honum, nógu klárir til að vera ekki að auglýsa það of mikið opinberlega), og hins vegar frjálshyggjumenn (sem yfirleitt eru kveðnir í kútinn af öðrum flokksmönnum), vaknar sú spurning hvort maður sé með atkvæði sínu ekki að styðja fólk til valda sem manni finnst fremur að ætti að láta fá sér heiðarlega vinnu. Það að flokkurinn skuli vera í sama þreytulega miðjumoðinu og allir hinir er hrein og bein móðgun við marga kjósendur hans.

Flokkur sem hefur arfleifð Ólafs Thors (sem að mínu mati var hreinlega sósíalisti), Bjarna Ben eldri (sem hefði ráðist inn í Pólland, hefði hann getað það) og Ingólfs Jónssonar frá Hellu (sveitafasista og kryptó-framsóknarmanns), þarf virkilega að halda á spöðunum ef taka á hann alvarlega sem einhvers konar kyndilbera sjálfstæðis og einstaklingsfrelsis á 21. öldinni. Á því kjörtímabili sem nú er að ljúka hefur flokkurinn ekki gert það, og þótt vissulega sé að vissu marki hægt að kenna framsókn um, er það hvergi nærri því nóg. Mér dettur ekki í hug að styðja flokk sem er svo latur við að minnka útgjöld ríkisins og lækka skatta við núverandi aðstæður sem raun ber vitni.

Það blasir því við að þeir sem eru í efnahagsmálum hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn hafa nákvæmlega ekkert til að kjósa. Ég get ekkert kosið á laugardaginn, og mun því sitja heima.


|

fimmtudagur, mars 22, 2007

Kvöldganga.

Í gærkvöldi fór ég í göngutúr. Ég stakk umslagi í vasann og gekk Tryggvagötuna þungur á brún. Umslaginu stakk ég svo í póstkassa á húsi nokkru við götuna. Því næst mælti ég sterkum rómi inn um lúguna eitthvað á þá leið að viðtakandinn skyldi helst troða því í ákveðið líkamsop á persónu sinni., helst láréttu.
Til að róa taugarnar fékk ég mér svo glas af púrtvíni áður en ég fór að sofa.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?