miðvikudagur, október 27, 2004

Til samanburðar
eru skoðanir mínar þannig í stuttu máli: Geðþótti sem er óbundinn af skynsemi – í veruleika sem skiptir ekki máli fyrr en hann bítur mann í rassinn – þar sem einstaklingshyggja er A til Ö.

Þetta er, eins og í samantekt minni á kenningum Rand, í mjög stórum dráttum. Ég get e.t.v. svarað spurningum um þetta, en ef ég birti hugmyndir mínar í heild geri ég það á betri miðli en þessu bloggi.

|
Löööng færsla um skítlegar skoðanir objektífista

Fyrir þá sem ekki vita hvað ég tala um:
Objektífistar eru fylgismenn kenninga Ayn Rand (1905-1982). Þeir voru upphaflega hluti af frjálshyggjuhreyfingunni bandarísku, en síðar varð klofningur í þeirri hreyfingu. Objektífistarnir klufu sig úr henni og eftir stóð enn sundurleitari hópur manna en áður. (Þeir sem hafa lesið þetta blogg vita hvaða álit ég hef á slíkum hreyfingum.)

Kenningar Ayn Rand eru í stuttu máli: Skynsemistrú í algildum óbreytanlegum veruleika þar sem rökræn/skynsamleg einstaklingshyggja ræður ríkjum í frjálsum óháðum kapítalisma. Náðuð þið þessu? Ef ekki, lesið þetta þá aftur. Og aftur.

Vandi við kenningar Ayn Rand er (að mínu mati) sá að hún lætur hinn algilda óbreytanlega veruleika innihalda siðfræði. Það sem er “slæmt” (eða “illt”) er það af náttúrunnar hendi. Settar eru fram ákveðnar objektífískar “dyggðir”, sem eiga að vera m.a. skynsemi, sjálfstæði, heiðarleiki og réttlæti, en alltaf er gengið að því sem vísu. Alltaf er litið á þetta sem óumdeilanlega fasta, og spurningar eins og “hvers vegna” kalla fram svör eins og “hvurn djöfulinn ertu að fara, kommakúkur?” eða eitthvað í þá áttina.

Ég hef nú lesið nokkrar nýlegar greinar eftir þekkta fylgismenn kenninga hennar, og það sem kom mér einna mest á óvart er það mikla hatur sem fylgismenn Ayn Rand virðast hafa á öllum líberalisma sem ekki er objektífismi.

Athugasemdir þess efnis að frjálshyggjumenn séu upp til hópa glæpamenn, hommar (!) og “hippar nútímans” eru einfaldlega ekki til þess fallnar að auka virðingu manns fyrir skoðunum þeirra.

Objektífistar eru ólatir við að benda á ósamkvæmni í málflutningi frjálshyggjumanna. En hvers virði er það? Það getur hver sem er gert, sérstaklega þar sem um svo sundurleitan hóp er að ræða sem raun ber vitni.
Ekki tekur maður afstöðu gegn gervöllu mannkyni á þeim forsendum að það hafi mismunandi skoðanir og sé því ósamkvæmt sjálfu sér!

Líberalistar eru til af öllum stærðum og gerðum. Allt frá biblíu-frjálshyggjumönnum til amóralista til anarkista til níhílista etc. Margir eru í fleiri en einum hópi. Aðrir ekki.

Sem Narkissistískur, hálfníhílískur amóralisti (skilgreining á mínum pólitísku skoðunum sem útheimti mikla andlega áreynslu og sársauka!) á ég (augljóslega) enga samleið með objektífistum. Ég á ekki neina samleið með hinum “kristilegu” frjálshyggjumönnum sem telja lykilinn að frelsi einstaklingsins liggja í Biblíunni. Ég er ósammála meira en helmingnum af stefnuskrá frjálshyggjufélagsins (á Íslandi). Ég fyrirlít hina loðnu og marklausu stefnu Sjálfstæðisflokksins.
En ég mun a.m.k. ekki taka þennan sundurleita hóp manna, steypa honum í eitt og gagnrýna hann svo fyrir að vera ósamkvæmur sjálfum sér!

Objektífistar hafa gullnu regluna að leiðarljósi og halda því fram að enginn maður megi skaða annan mann. Enginn skuli fórna sér fyrir aðra né fórna öðrum fyrir sig. Á sama tíma vilja þeir laissez-faire kapítalisma!

Ekki ætla ég að lifa mínu lífi á þann hátt að ég skaði ekki hagsmuni nokkurs annars manns. Ef ég þarf (eða vil) þess, mun ég fórna hagsmunum annarra fyrir mína eigin. Jafnvel svo mörgum að Chichen Itza blikni í samanburði!
Kapítalismi snýst um það að græða, og ekkert frekar um gagnkvæman gróða, nema maður komist ekki hjá því.

Það er e.t.v. til marks um trúverðugleika objektífismans að það telst illvirki að skjóta fátækling í höfuðið. Ef hann er látinn svelta í hel vegna þess að enginn vill hjálpa honum ætti það hins vegar að teljast allt í lagi.

Svo renna Objektífistar endanlega á bakhlutann hugmyndafræðilega þegar þeir hefja réttindasönginn um “hin ófrávíkjanlegu réttindi mannsins” sem ríkið á að vernda. Á þessum punkti gefa alltof margir frjálshyggjumenn eftir og vilja helst skríða undir pilsfald ríkisins.
Ég verð aldrei leiður á því að lýsa fyrirlitningu minni á þessari vitleysu. Það getur enginn maður haft mannréttindi sem hann getur ekki varið. Ég skal skrifa þetta með stórum stöfum svo það fari ekki milli mála:

ÞAÐ GETUR ENGINN MAÐUR HAFT MANNRÉTTINDI SEM HANN GETUR EKKI VARIÐ!

Mannréttindi eru (eins og siðferði almennt) hugarburður. Og þau verða ekki óumdeilanlegur sannleikur þótt maður e.t.v. óski þess. Þau eru ekki náttúrufyrirbæri!

Mannréttindi eru altrúískur afneitunarvellingur sem þriðja flokks stjórnmálamenn matreiða ofan í sjálfa sig og aðra sem afsökun fyrir metnaðarleysi og aumingjaskap af sama tagi og er lýst í athugasemd refsins í dæmisögu Esóps, sem taldi að berin sem hann hafði gefist upp á að ná í væru áreiðanlega súr og óæt.

|

föstudagur, október 01, 2004

Til hvers?

(Þetta er EKKI títtnefnd reifun...)

Dómur Hæstaréttar í máli nr 95/2004 er dæmi um mál sem laðar að sér mykjuflugur.

Deilt var um galla á fasteign (jibbígamanhúrraspennandi) og krafist var u.þ.b. 516.000 kr., þ.e. 400.000 í afslátt af kaupverði, 16.000 kr. fyrir meindýraeyðingu og 100.000 kr. vegna þess að kaupandi þurfti að flytja út úr íbúðinni meðan á viðgerðum á skólplögn stóð. Ekkert er óvenjulegt við kröfurnar.

Í Hæstarétti var kaupandanum dæmdar 360.000 kr. í afslátt af kaupverðinu en aðrar kröfur hans voru ekki teknar til greina.
En málskostnaðurinn var 400.000 kr., fjögurhundruðþúsund krónur. Því hefur málið kostað seljanda 760.000 kr.

Nú tel ég að ljóst hafi verið frá upphafi að málið færi á svipaðan veg og raun bar vitni. Til hvers var seljandinn með múður? Og hvers vegna í ósköpunum áfrýjaði hann dómnum? Hann þurfti bara að borga miklu meira!

Nú hef ég (að sjálfsögðu) ekkert á móti því að lögmenn fái greitt vel fyrir vinnu sína. En svona heimska fer í taugarnar á mér.
Ef ég ætti (sem seljandi) um það að velja að borga annaðhvort hálfa milljón og ljúka máli strax, eða 760.000 kr. og standa í veseni í tvö ár, myndi ég að öllum líkindum velja fyrri kostinn.


|
Tvær afsökunarbeiðnir.

1. Ástæður þess að ég hef verið þögull hér á síðunni svona svívirðilega lengi eru þær að ég var búinn að reiða mikla sleggju til höggs, pistilinn “Um Hæstaréttardómara og hversu skal þá skipa”. Rétt eftir að ég kláraði hann frétti ég að ráðherraafmánin hafi skipað í stöðuna!
Ég var ekkert sérstaklega glaður. Gat þetta fíbbl ekki frestað þessu um... segjum bara... viku?

2. Dómsreifunin sem ég hafði í huga að birta hér á síðunni lætur á sér standa vegna þess að hún er einfaldlega ekki tilbúin.
Hún er ekki tilbúin vegna þess að dómurinn er aðeins aðgengilegur á einum stað í landinu (svo ég viti). Lestrarsal Þjóðskjalasafns Íslands.
Þessi dómur er ekki beinlínis nýlega uppkveðinn...

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?