miðvikudagur, desember 01, 2004

Hvers á að minnast 1. desember?
Í Morgunblaðinu í dag, bls. 30, er birt grein eftir Kristján Pálsson, frv. alþingismann og núv. nema í sagnfræði við Háskóla Íslands, um Jón Magnússon, fyrsta forsætisráðherra Íslands. Í þessari grein kemur fram söguskýring sem vekur furðu mína.

Það fyrsta sem stingur í augun er hin venjulega Valhallaraðdáun á Hannesi Hafstein, sem mér finnst með öllu óskiljanleg. Maðurinn var glæsilegur á velli og röggsamur sýslumaður, en sem stjórnmálamaður var hann ekkert sérstakur. Hannes Hafstein var aðeins sá maður sem var sýnilegur þegar mikil og merkileg tímamót urðu á Íslandi. En minningu hans er enginn greiði gerður með því að hefja hann upp til skýjanna á þann hátt er nú tíðkast.Getið þið nefnt eitthvað mikilvægt sem hann náði fram í ráðherratíð sinni? Eitthvað sem skipti sköpum?
Hvað hugsanlega gagnrýni á þessum skoðunum mínum varðar, vísa ég til þess að þegar greinarhöfundur lýsir yfir ágæti hans, getur hann ekki nefnt neitt því til stuðnings nema þá helst það að hann var lengi ráðherra.
Ef það er viðmiðunin er varðar ágæti stjórnmálamanna, væri Eysteinn Jónsson (B) vafalítið í miklum metum hjá Kristjáni, en af einhverjum ástæðum efa ég það.

Í beinu framhaldi af því viðurkenni ég að þegar Kristján segist telja pólitískan árangur Jóns Magnússonar jafnast á við árangur Hannesar Hafstein er ég honum sammála.
Kristján rekur réttilega það að hann var skrifstofustjóri í ráðuneyti Hannesar Hafstein. Hann var embættismaður, og ég held að menn séu almennt sammála um það að hann hafi verið ákaflega góður skrifstofustjóri. Hann var skipulagður og samviskusamur. En hann var aldrei alvöru pólitíkus.
Hann var maður sem framsóknarmenn, heimastjórnarmenn og flestir þversummenn gátu sætt sig við, m.ö.o. hófsamur, laus við sterkar skoðanir og sífellt gerandi málamiðlanir. Helstu einkenni frelsishetjunnar og hins sterka leiðtoga, ekki satt?

Dagur Einars Arnórssonar?
Kristján Pálsson telur að helst ætti að minnast Jóns Magnússonar 1. desember ár hvert, þar sem Jón Magnússon "leiddi Íslendinga til fulls sjálfstæðis(sic) árið 1918". Þessi fullyrðing er í besta falli ónákvæm, og í versta falli alvarleg ósannindi.

Rétt er að Jón Magnússon var forsætisráðherra 1918. Hann tók við embættinu 4. janúar 1917. En það sem náðist fram í sambandsmálinu í hans valdatíð var ekki honum að þakka.
Það voru aðallega tveir menn sem þakka má fullveldið 1918. Einar Arnórsson og Bjarni frá Vogi. Í ráðherratíð sinni frá 4. maí 1915 til 1917 ruddi Einar Arnórsson brautina fyrir sambandslögin. Hann leysti fyrirvaramálið og fánamálið, og fékk stjórnarskrárfrumvarpið samþykkt. Með því losaði hann um stíflu í málinu sem staðið hafði í tíu ár.
En flokkur hans, Sjálfstæðisflokkurinn langsum, varð fylgislítill, og framsóknarmenn, Sjálfstæðisflokkurinn þversum og Heimastjórnarflokkurinn mynduðu stjórn undir forystu téðs Jóns Magnússonar.

Einar var síðar einn hinna fjögurra sem sátu í sambandslaganefndinni, og var sá Íslendingur sem hafði sig mest í frammi. Yfirburðaþekking hans á sviði lögfræði, og hæfileikar við samningaumleitanir, urðu þess valdandi að hinir fulltrúar Íslands nánast sátu og horfðu á. Hann skrifaði sambandssáttmálann upp á sitt eindæmi.
Hann færði Íslendingum fullveldi án þess að vera forsætisráðherra. Og sú staðreynd að Jón Magnússon skrifaði undir lögin í krafti embættis síns skiptir einfaldlega ekki máli. Segja má að Íslendingar hafi orðið fullvalda 1918 þrátt fyrir að Jón Magnússon var við völd, ekki vegna þess.

Góður hvutti, góður hvutti.
Að lokum vil ég í framhaldi af þessu minnast á hina einfeldningslegu höfðingjadýrkun er skín í gegnum greinina alla. Menn eins og Hannes Hafstein, Jón Magnússon, Jón Þorláksson (sem að vísu var aðallega hugsuður, skv. Kristjáni), Ólafur Thors og Davíð Oddson eru hafnir upp til skýjanna.
Þrátt fyrir það að þessir einstaklingar hafi verið áberandi á mismunandi tímabilum íslenskrar stjórnmálasögu, og það að kalla megi þessa menn (þá sérstaklega hina þrjá síðastnefndu) snjalla stjórnmálamenn, er það tæplega eðlilegt að eigna þeim allt það sem gerðist þjóðinni til heilla á þeim tíma er þeir voru við völd.

Það eru ekki bara leiðtogarnir sem hafa pólitísk áhrif. Það eru ekki bara þeir sem eiga að taka ákvarðanir. Það eru ekki bara þeir sem hafa skoðanir. Hinn Nietzsche-íski "vilji til valds" er ekki séreign þeirra.
Þetta hefði Kristjáni Pálssyni ef til vill verið hollt að hafa í huga er hann var í stjórnmálum.

|
Um "persónuleg blogg".
Ég fæ oft þau viðbrögð frá fólki að bloggið mitt sé "ópersónulegt", og að ég fjalli ekkert um sjálfan mig eða það sem ég geri dags daglega.
Er þá oft bent á annarskonar bloggsíður; bloggsíður sem fjalla helst um það hvað viðkomandi borðaði í gærkvöldi og hvar viðkomandi var að djamma, auk ógleymanlegra færslna eins og "ég var að baka í gær" og "ég fór í bíó í gær".
Ég tel að slíkt sé einmitt ákaflega ópersónulegt. Allir þurfa að neyta matar og drykkjar, allir skemmta sér. Af hverju er það "eðlilegt" og "persónulegt" að gera eitthvað sem allir gera og eyða tíma sínum í að gefa um það skilmerkilega skriflega skýrslu á netinu?

Ég er með hverri einustu færslu sem ég set hér inn að segja frá sjálfum mér. Í stað þess að eyða púðri í "frumþarfirnar" svokölluðu, einbeiti ég mér að því sem er mun einstaklingsbundnara (og þ.a.l. mun "persónulegra"). Því sem ég er að hugsa.

Skoðanir mínar eru mjög "politically incorrect". Ég hef legið undir ámæli fyrir að lýsa yfir mannhatri, níhilisma og siðleysi á þessu bloggi. Skoðanir mínar eru ekki líklegar til að njóta mikillar hylli meðal almennings. Og samt birti ég þær!
Ég tel að til þess þurfi mun meira átak en að segja t.d. "ég fór í keilu í gær og var svaka góður". Og ég tel að það sé mun persónulegra.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?