fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Um ill örlög Úlfs Sveinbjarnarsonar.

Undirrituðum hefur orðið ljóst að hann á erfitt með að tjá sig um skoðanir sínar án þess að vísa til Max Stirner. Það þarf undirritaður að gera til að verða ekki sakaður um plagíarisma, enda þótt skoðanir hans hafi mótast áður en honum varð ljóst að þær hafi verið settar fram áður.
Undirritaður er dapur í bragði þessa dagana vegna þess að botninn er að sumu leyti dottinn úr tilvist hans sem einstaklings.
Undirritaður veltir því fyrir sér hvort hann ætti að leggja leið sína niður á Hagstofu og láta breyta nafni sínu í... Max Stirner.

|

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Um Anton Bruckner.

Mér til ánægju og yndisauka fór ég á sinfóníutónleika í vikunni.
Það væri ekki í frásögur færandi, allra síst á eins “persónulegu” bloggi og þessu, nema fyrir það að á efnisskránni var aðeins eitt verk, Sinfónía nr. 8 eftir Anton Bruckner.

Ég veit ekki um lengri sinfóníu en áttundu sinfóníu Bruckners, nema e.t.v. 3. sinfóníu Mahlers. Í flutningi er hún u.þ.b. einn og hálfur klukkutími að lengd. Þar að auki eru fjórða, fimmta og níunda sinfónían betri. Hins vegar er áttunda sinfónían “áheyrilegri” fyrir óinnvígða.

Sem manneskja var Anton Bruckner fullkomlega fyrirlitlegur: (á mælikvarða Úlfs Sveinbjarnarsonar) trúaður, veiklundaður, lítillátur og metnaðarlaus.

Sem tónskáld var Bruckner að vissu leyti eins og Einar Benediktsson var sem skáld. Kosmískur, stirður og aðeins of langdreginn.
En engum hefur tekist að koma heiminum eins vel fyrir í klukkutíma af músík. Uppbyggingin á verkum hans er óaðfinnanleg.

Venjulega þegar hlýtt er á tónlist, nægir það hlustandanum að hafa aðeins í huga “augnablikið” í tónlistinni; Reynsla hlustandans er “linear” og auðmelt.
Þegar hlustað er á Bruckner nægir það ekki. Helst þarf að hafa allan kaflann í huga í einu, líta á hann sem heild líkt og Berkeley taldi að “guð” sæi heiminn.
Það nægir ekki að hlusta einu sinni á þessar löngu sinfóníur Bruckners til að meðtaka efni þeirra. Helst þarf að hlusta á þær mörgum sinnum.
Á undraverðan hátt virðast þær skreppa saman við það. Lengdin hættir að angra mann vegna þeirrar vitneskju að það er tilgangur með hverju einasta smáatriði í verkinu.

Og það rennur upp fyrir manni að Bruckner var í senn frumlegri, klárari og meiri listamaður en Brahms varð nokkurntímann.

|
Trúarbrögð.

Eins og lesendum þessa bloggs mun vera ljóst, er undirrituðum sérstaklega uppsigað við trúarbrögð. Mér finnst rétt að setja skýrt fram ástæðu þess.

Ástæða þess að ég er á móti þeim er sú að mitt egó (sem er gríðarlegt) leyfir ekki að ég setji mig undir einhvern (sbr. “Ich hab’ mein Sach auf Nichts gestellt” hjá Stirner).

Ef ég vil undiroka einhvern (þ.e. helga mér viðkomandi, gera hann að “Eigentum”, sbr. Stirner), eru trúarbrögð bara eitt tæki til þess.

“Stóru trúarbrögðin” t.d. kristindómur, gyðingdómur og íslam, eiga það sameiginlegt að engin vissa er til staðar um tilvist þess sem trúað er á. Ég tel það fyrirlitlegt að þjóna egói einhvers annars, en ÓENDANLEGA fyrirlitlegt að þjóna egói sem maður veit ekki hvort er til eða ekki, og getur ekki haft samskipti við.

|

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Um misskiptingu sem forsendu hámenningar. (eða: hvers vegna eru vinstrisinnaðir listamenn fífl?)

Þegar litið er á söguna og ríkir menn hvers tíma skoðaðir, frá Maecenasi til Medici, frá Rothschild til Rockefeller, sést vel að þeir eiga það sameiginlegt að hafa stutt við bakið á hámenningu.

Þegar litið er á söguna og framúrskarandi listamenn hvers tíma skoðaðir, frá Virgilíusi til Wagner, frá Michelangelo til Mozart o.fl. o.fl. o.fl., sést vel að þeir hafa notið styrks ríkra “listvina”.

Til þess að hámenning fái þrifist þarf mjög ríka einstaklinga. Er það vegna þess að þessir ríku einstaklingar hafi haft áhuga á hámenningu sem slíkri? Ekki vil ég meina það.

Það að vita ekki aura sinna tal er (ímynda ég mér) ákaflega erfitt. Það sem menn hafa eflaust gert er að eyða í lúxus; kaupa sér skrautlega hluti, dýr híbýli, góðan mat o.þ.h.
En þegar ríkidæmið er svo mikið og tekjurnar svo háar að menn vita ekki hvað þeir eiga við alla fjármunina að gera, lenda þeir, eða a.m.k. hluti þeirra, hjá listamönnum.

Misskiptingin er ekki lengur svona mikil. Forstjórar nú til dags hafa aðeins þrjátíu sinnum meiri tekjur en lægst settu undirmenn þeirra.
Þar sem tekjur hinna ríku eru hlutfallslega minni nú á dögum, fer minna í hámenningu en áður. Það eina sem sést er lúxusinn.

Nú er ég ekki á móti því að menn eyði í lúxus. Mér finnst það hjákátlegt þegar það er talið siðlaust og spillt. Ég er þvert á móti fylgjandi óhófi á alla lund.

En ég hef einnig mikla ánægju af hámenningu og vil því veg hennar sem mestan.

Lausnin á þessu vandamáli er sú að auka misskiptingu í þjóðfélaginu nógu mikið til að peningarnir skili sér til listamanna.

Þegar listamenn á framfæri ríkisins eru á móti ríku fólki, eru þeir að kasta af sér vatni þar sem þeir ættu að sofa, og sofa þar sem þeir ættu að kasta af sér vatni.

|

mánudagur, febrúar 07, 2005

Um mál- og trúfrelsi.
Í sínu höfuðriti, Der Einzige und Sein Eigentum (sem mér er sérstaklega hugleikið þessa dagana), ræðir Max Stirner um málfrelsi.

Þegar trúuðu fólki er veitt frelsi af stjórnmálamönnum, eru þeir að lofa upp í ermina á sér. Því trúaðir geta ekki verið frjálsir. Þeir eru þrælar sem hafa selt sig í ánauð annars egós.

Ef maður veitir sauðkind málfrelsi, heldur hún áfram að jarma. Hún heldur áfram að vera sauðkind, og hefur ekkert við málfrelsi að gera.
Ef maður veitir trúuðum manni málfrelsi, heldur hann áfram að bulla einhverja déskotans vitleysu. Því hann er enn trúaður.

Með löggjöf verður manni ekki veitt frelsi, því frelsi er eins og önnur svokölluð “réttindi”. Það stofnast ekki af sjálfu sér, heldur tekur maður sér það.

Sá paradox sem í orðinu “trúfrelsi” felst er einkar skemmtilegur. Í raun er með trúfrelsi verið að gefa fólki leyfi til að selja sig í þrældóm.
Nú er ég ekki að mæla því í mót, en væri ekki ráð að ganga þá alla leið og gefa þrælahald að öllu leyti frjálst?

|
Egóið.

Í heimspeki Max Stirner er “egóið” mjög mikilvægt.
Maður er í raun alltaf að þjóna egói einhvers. Max Stirner vill þjóna sínu eigin egói, og ekki egói einhvers annars, hvort sem um er að ræða “guð” eða menn.

“Ich hab’ mein Sach auf Nichts gestellt” er fræg ljóðlína, upphaf kvæðis Göthe, Vanitas! Vanitatum Vanitas.
Í heimspeki Max Stirner hefur þessi lína mikla merkingu. Þetta þýðir tvennt:
Í fyrsta lagi þýðir það: Allt er mér einskis virði (þá átt við gildi).
Í öðru lagi þýðir það: Ég læt engan dæma mig. (og: enginn er mér æðri)

E.t.v. hagar maður sér á sama hátt og aðrir, það er mögulegt. En maður gerir það á öðrum forsendum. Í stað alls þess altrúíska jafnréttis-siðferðisrugls sem manni er innrætt varnarlausum er maður sjálfum sér næstur, og gengur aðeins út frá sjálfum sér.

Stirner setur ekki fram einhverja meginreglu um það hvernig á að haga sér. Hann hins vegar er sjálfur mótfallinn því að þjóna öðrum á altrúískan hátt, og kýs að þjóna sjálfum sér.
Hann þarf ekki að réttlæta skoðanir sínar eða gerðir fyrir neinum. Hann er frjáls.

Eigentum” (eign) einstaklingsins er það sem hann helgar sér, hvort sem það er hlutur eða manneskja, efnislegt eða félagslegt. Það sem einstaklingurinn hefur vald yfir, getur haldið við eða eytt að vild.

Í hugmyndum Stirner um eign er ekki talað um fyrirbærið eins og um sé að ræða “réttindi” í náttúruréttarlegum skilningi. Eign er eitthvað sem maður tekur sér. Í því felst einnig að geti maður ekki varið hana, er hún ekki eign manns lengur.

(Ótrúlegt. Ég hef haft þessar skoðanir, misþróaðar þó, í tvö ár. En fyrir mánuði vissi ég ekki af tilvist Max Stirner.)

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?