þriðjudagur, mars 15, 2005

Anarkísk lögfræði?

Við fyrstu sýn mætti ætla að lífsskoðun mín samrýmdist ekki því fagi sem ég legg stund á við Háskóla Íslands.
Hvernig er hægt að vera í lögfræði ef maður er á móti lögum í sjálfu sér? Er mark takandi á slíkum manni?

Þegar ég ímynda mér að ég sé spurður slíkra spurninga svara ég að bragði: “eru afbrotafræðingar almennt fylgjandi afbrotum?”. (Og þess má geta að þegar ég rökræði í huganum vinn ég alltaf).

|

mánudagur, mars 14, 2005

Anarkismi og Aristóteles.

Til eru margs konar skoðanir sem flokkast undir “anarkisma”. Undirflokkarnir eru tveir, vinstri og hægri.
Í hægri flokknum eru (eftir því sem ég best fæ séð) aðeins tvenns konar hugmyndir, Anarkó-kapítalismi (afnám ríkisins, reglur fjármunaréttar haldast eftir venju etc.) og anarkó-indivídúalismi (sem undirritaður aðhyllist, áhrif frá Max Stirner) Báðar þessar stefnur eru nálægt níhílisma, og ef til vill nær níhílisma en vinstri-anarkistar.

Vinstri-anarkistar, hvaða nafni sem þeir kalla sig, eru að mati undirritaðs frekar barnalegir. Það sem maður hlýtur að spyrja sig að er: “hvað vilja þeir?”.
Og þetta er einmitt ástæða þess að sögulega hafa þeir verið notaðir til að kollvarpa sitjandi stjórn, það gerðist bæði í Rússlandi 1917 og í Spænsku borgarastyrjöldinni, en eftir að því takmarki er náð, er það fyrsta verk nýrrar stjórnar að ryðja þeim úr vegi með mjög blóðugum aðgerðum.

Það eina sem einkennir þetta fólk er að það er óánægt með sitjandi stjórn. Það er óánægt með stéttaskiptingu (=eigið ídentítet) og það er óánægt með samfélagið. Siðfræðilega er þetta fólk mjög skrýtið, þar sem það vill bæði eiga kökuna og éta hana.

Þetta fólk er, þrátt fyrir allt, mjög “rational” og Aristótelískt þenkjandi. Það vill einfaldlega ná hugðarefnum sínum fram með öðrum leiðum en gert hefur verið. Án ríkisvalds, og hinn “göfugi villimaður” verður alls ráðandi. Þessi blöndun á Rousseau og Aristótelesi getur af sér hugmyndafræðilegan múlasna.
“Göfugi villimaðurinn” er einfaldlega hjarðdýr sem á eftir að setja upp annað batterí sem er keimlíkt hinu fyrra. Hið aristótelíska hugarástand hins göfuga villimanns leiðir af sér hið óumflýjanlega: nýtt ríkisvald.
Ef menn ætla endilega að setja upp nýtt miðstjórnarvald, nýja gerð ríkisvalds eða eitthvað slíkt, er einfaldlega ekki um anarkisma að ræða, heldur aðeins stjórnskipulegar breytingar. Það að verkalýðsfélög eða “flokkurinn” ráði er ekki nóg.

Hægri-anarkismi er hins vegar þess eðlis að EKKERT kemur í staðinn
Anarkó-kapítalistar eru sumir aristótelískt þenkjandi. Þeir telja að kapítalismi án ríkisvalds sé hentug leið til að tryggja hamingju sem flestra, að þetta æðsta stig “laissez faire” tryggi mesta hagsæld. En svo lengi sem þeir telja ekki að fyrirtækin sem slík hafi yfir fólki að segja (eins og vísir er að sums staðar) kemur ekkert í stað ríkisvaldsins.
Aðrir anarkó-kapítalistar eru mun nær anarkó-indivídúalismanum; þeim er sama um siðferði, og hyggjast nýta sér kapítalismann í eigin þágu. Þannig er kapítalisminn aðeins tæki. Enn sem áður er ekkert miðstjórnarvald til staðar.
Hugmyndir anarkó-indivídúalista eru öllum ljósar sem á annað borð lesa þetta blogg. Og skv. þeim hugmyndum eru aðeins til einstaklingar og eignir.

Og eftir stendur að hægri anarkismi er "raunverulegur" anarkismi.

|

föstudagur, mars 11, 2005

Er eftirsóknarvert að allir séu jafnir?

Ég er stórhneykslaður á þeim hroka sem mér er sýndur með því að ég hafi jafnan kosningarétt á við ómenntaðan og heimskan verkamannsþræl.
Ég þjáist við tilhugsunina um það að einhver útnárafífl skuli hafa svo mikið yfir manni að segja að þau geti kosið yfir mann vitsmunalega jafningja sína.
Mér finnst slíkt “jafnrétti” ekkert eftirsóknarvert.

|

mánudagur, mars 07, 2005

AF GEFNU TILEFNI
Vegna pistilsins hér fyrir neðan.
Mér finnst nasistar (að fornu og nýju) fyrirlitlegir. Þeir voru og eru upp til hópa menntunar- og menningarsnauðir, kreddufullir lágstéttarbjánar.
Mér er sama um kynþætti. Ég geri ekki upp á milli þeirra. Ekki vegna neinnar “góðmennsku”; ég sé bara ekki tilganginn með því.

Þegar menn þykjast meiri en aðrir á grundvelli einhvers annars en sjálfs sín, þykir mér slíkt til marks um smámennsku, hvort sem er í fari Þjóðverja, Gyðings eða Marsbúa.
Með því að telja sig hluta af hópi eru menn um leið að afneita einstaklingseðli sínu.
Ég tel mig því ekki Íslending fremur en annað.
Ég er hins vegar ég sjálfur. Það finnst mér nóg. (Jafnvel meira en nóg).

Og þar með lýkur sjálfsvörninni.

|
UM HELFÖRINA.

Inngangur.
Í byrjun síðasta mánaðar var mikið rætt um helförina, og þá í tilefni af því að 60 ár eru síðan eftirlifendur Auschwitz voru frelsaðir.
Nú, þegar um hefur hægst, þykir mér rétt að lýsa eigin skoðun á þessu fyrirbæri, helförinni, og ástæðum þess.
Ég á það á hættu að móðga fólk illa, það veit ég.

Ég tel að menn séu á villigötum þegar menn stilla þessu upp sem svörtu og hvítu, góðu og illu. Með því er verið að einfalda þetta um of.
Ég nenni ekki að tala um smáatriðin, sem sumir einblína á. Við höfum öll séð þetta, og höfum fæst haft ánægju af því.
Með því að virða fyrir sér vannært, barið og limlest fólk, lífs eða liðið, kemst maður engu nær því hvað fyrirbærið er, né heldur hvað olli því.

Heimspekin.
Algengt viðhorf meðal þýsku intellígentsíunnar á fyrri hluta 20. aldar (og s.hl. 19. aldar) var svonefnt tæknihatur. Með orðinu er ekki átt við að þeir hafi verið Luddítar (vélbrjótar), heldur var fremur átt við vélvæðingu mannsandans. Tengsl mannsins við eðli sitt og tilvist sína. Nietzsche, Husserl og Heidegger eru dæmi um heimspekinga sem skipta máli í þessu sambandi.

Þessar hugmyndir höfðu breiðst út. Kvikmyndin Modern Times eftir Charles Chaplin er dæmi um það. Maður sem flækist í tannhjólum o.s.frv.
Einhver kann að spyrja sig: Hvað kemur Nútíminn eftir Chaplin helförinni við?
Nú kem ég að því.

Þegar viðtal við Martin Heidegger var birt í Der Spiegel eftir dauða hans bjuggust margir við að sjá sundurkramningu hjartans á prenti. Hann hafði bannað birtingu viðtalsins fyrir dauða sinn og því töldu menn að hann hefði “opnað sig”. Það var öðru nær. Það olli mikilli hneykslan víða um veröld að hann kenndi “techne” um helförina.

Pólitíkin.
Við fyrstu sýn kann að virðast að þetta hafi aðeins verið aumkvunarverð tilraun gamals nasista til að kenna einhverjum öðrum um þjóðernishreinsanir helfararinnar.
En þegar maður skoðar ummæli hans betur rennur það upp fyrir manni að þarna hafi hann hitt naglann á höfuðið.
Þegar litið er á eðli nasismans (og ég hef kynnt mér hann mjög vel) má segja að vélvæðing mannsandans sé beinlínis grundvöllur hans.

Þegar menn t.d. horfa á myndir Leni Riefenstahl með því hugarfari, smellur þetta saman. Ekki er um einstaklinga að ræða, heldur viljalausar vélar. Þúsundir marséra í takt. Þúsundir rétta hægri hendur sínar upp í hitlerskveðju. Einstaklingurinn skiptir ekki máli, heldur þjóðin. Hinn hreini kynstofn.

Þegar skoðuð er bók Hönnuh Arendt, Eichmann in Jerusalem (um réttarhöld yfir Adolf Eichmann) sést þetta einnig. Þeir sem sáu um fangabúðirnar voru viljalaus verkfæri. Þeir höfðu smitast af þeim sjúkdómi sem virðist ennþá hrjá marga starfsmenn stjórnsýslunnar utanlands sem innan: skortur á gagnrýni og sjálfstæðri hugsun hvað varðar eðli atvinnu sinnar.

Eichmann taldi sig einfaldlega vera embættismann. Hann skipulagði þetta einstaklega skilvirka kerfi. Hann leit ekki svo á að hann væri að gera neitt rangt. Hann var bara vél. Eins konar tölva. Embættismaður.

Maðurinn sem var yfirmaður Auschwitz, Höss að nafni, var annálaður dýravinur. Og vann við að drepa gyðinga. Í hans huga voru gyðingar ekki fólk, og ekki dýr, heldur hlutir.
En eitt sá hann ekki, og það var sú staðreynd að hann var sjálfur meiri “hlutur” en fórnarlömb hans.

Það sem er að mínu mati óhuggulegt við helförina er ekki “illskan” við verknaðinn. Fólk hefur verið drepið áður á kerfisbundinn hátt, bæði konur og börn. Dæmi um það eru herferðir Assýringa, Tyrkir hjuggu Grikki niður í flæðarmálinu í Míletos, Japanir þurrkuðu út frumbyggja á nærliggjandi eyjum. Rómverjar eyddu Samnítum og öðrum “óþægilegum” þjóðflokkum. Hægt er að nefna mörg fleiri dæmi um þetta.

Það sem er sérstakt við helförina er það hversu vélvædd og skilvirk hún var. Flest fjöldamorð eru framin vegna hugmynda eða tilfinninga gerandans sjálfs. Í t.d. Auschwitz var hins vegar um að ræða ópersónulegar athafnir manna sem báru svipaðar tilfinningar til fórnarlamba sinnar og bóndinn til flórsins sem hann þarf að moka.

|

fimmtudagur, mars 03, 2005

Ónáttúra?

Það sem mér finnst einna fyndnast við þessi fyrirbæri, “náttúrurétt” og “hin ófrávíkjanlegu réttindi mannsins”, er það að áhangendur þeirra hafa eignað sér “náttúruna” sem einhvers konar bandamann í baráttu sinni fyrir því að skoðanir þeirra nái fram að ganga. Enn fremur telja þeir sig sérstaklega “rational” (eitt af helstu einkennum fábjána).

Útskýring:
Náttúrunni er sama um rán, morð, nauðganir og pyndingar. Hægt er að stunda þetta allt saman.
Náttúran tekur ekki afstöðu til skoðanafrelsis, tjáningarfrelsis, jafnréttis, atvinnufrelsis og félagafrelsis.

Ef maður er ósammála því, og telur að rán, morð, nauðganir og pyndingar séu hlutir sem gerast ekki í náttúrunni, og að náttúran sé merkisberi skoðanafrelsis, tjáningarfrelsis, jafnréttis, atvinnufrelsis og félagafrelsis, er það talið til marks um að maður sé sérstaklega “rational”.

Er þetta ekki allt saman mannaverk? Af hverju þarf að vera að blanda einhverju “æðra lögmáli” inn í þetta.

Vilji mannsins og framkvæmd hans skiptir meira máli en það hvort viðkomandi er “rational” eða ekki. Ef vilji mannsins er í einhverju tilviki andstæður einhverjum óljósum siðferðishugmyndum, er það ekki til marks um að hann sé á einhvern hátt ónáttúrulegur, eða réttlægri vilja annarra.
Ef einhverjum mislíkar framkvæmd hans á vilja sínum, sama hvers eðlis hún er, og bregst við því t.d. með að drepa viðkomandi, er það ekki heldur ónáttúrulegt. Og alls ekki réttlægra.

Svo kemur inn í dæmið einhvers konar “allsherjarvald”. Einhver sem setur lög, ákveður fyrir aðra hvaða athafnir séu “slæmar”, og sér sjálfur um refsinguna.
Sem veldur því að barnaníðingar eru sendir í átján mánaða fangelsi í stað þess að verða grýttir af æstum múg.
Sem er einmitt sérstaklega náttúrulegt og “rational”!

|

miðvikudagur, mars 02, 2005

Mín ágæta verðandi prófessjón.

Úr héraðsdómi sem birtur er í dómi Hæstaréttar í máli nr. 376/2004:
“Stefndi, N.N., greiði stefnanda, M.M., 407.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. júní 2002 til greiðsludags.
Stefnandi (M.M.) greiði stefnda (N.N.) 450.000 krónur í málskostnað.”

Svigarnir eru mín innskot til skýringar.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?