miðvikudagur, apríl 20, 2005

Fyrsta próf vorsins?

Hmm. Þetta er satt að segja rétt niðurstaða.
En mér mislíkar það stórlega að Ayn Rand skuli vera kennd við þetta. Í prófinu hafnaði ég skynsemishyggju, en fæ samt 100% í því sem höfundur prófsins vill kenna við Ayn Rand!

You scored as Strong Egoism. Your life is very much guided by the concept of Egoism: You work primarily to promote your own interests.



“I swear by my life, and my love of it, that I will never live for the sake of another man, nor ask another man to live for mine.”

“I am not primarily an advocate of capitalism, but of egoism; and I am not primarily an advocate of egoism, but of reason. If one recognizes the supremacy of reason and applies it consistently, all the rest follows.”

--Ayn Rand



More info at Arocoun's Wikipedia User Page...

Strong Egoism

100%

Hedonism

85%

Existentialism

85%

Nihilism

75%

Justice (Fairness)

30%

Apathy

25%

Kantianism

10%

Utilitarianism

0%

Divine Command

0%

What philosophy do you follow? (v1.03)
created with QuizFarm.com

|

mánudagur, apríl 18, 2005

Indivídúalismi: póstmóderníska leiðin?

Lyotard skilgreindi póstmódernisma einhverju sinni sem “incredulity of metanarratives”.

“Metanarrative” er eitt af þessum orðum sem eru að miklu leyti pseudo-intellektúal; eitt af þessum orðum sem póstmódernistar slá um sig með í hópi manna sem minni áhuga hafa á póstmódernisma en þeir sjálfir.
Með orðinu er vísað til þeirra reglna sem samfélagið hefur sett, er ákveðinn consensus um að ekki skuli véfengja, og flest fólk lítur á sem “elementary”.
Með þessu er yfirleitt skírskotað til félagslegra atriða en ekki metafýsískra.

Ef menn vita ekki að Michel Foucault var skv. mati samtíðarmanna öfuguggi (ég lýsi því ekki nánar hér, jafnvel nú væri hann talinn sérvitringur í þessum efnum) botna þeir ekkert í því sem hann hafði fram að færa. Allt sem hann sagði miðar meira og minna að þessu þrennu: 1) Ekki dæma mig, 2) De gustibus non est disputandum (það á ekki að deila um smekksatriði) og 3) þessir konvensjónal hálfvitar hafa verið vondir við mig, fy og skam.

Sú spurning vaknar hvort þetta geti ekki allt verið samrýmanlegt þeim skoðunum sem ég hef sett fram hér á síðunni.
Og svarið hlýtur vissulega að vera játandi, en ég verð að árétta það að flestir póstmódernistar eru frekar vinstrisinnaðir og móralskir, og eiga þar af leiðandi ekki samleið með indivídúalistum.

Það að móta sér pólitíska skoðun aðeins út frá sexúalíteti er að mínu mati til marks um það að viðkomandi skilgreini karakter sinn einungis út frá þeim punkti. Sem mér finnst nokkuð einfeldningslegt, í orðsins fyllstu merkingu.

|
Tilkynning
Á þessari síðu tjái ég mig yfirleitt lítið um málefni líðandi stundar, en af gefnu tilefni tel ég ástæðu til að árétta að ég var EKKI á þessari svokölluðu anarkista-ráðstefnu í Skotlandi, sem haldin var nýverið.

Burtséð frá því að ég hef ekki sömu skoðanir og þessir and-hnattvæðingar vinstrianarkistar, þykir mér fyrirbærið beinlínis fyndið.
Siðferðileg vandlæting stjórnleysingja er hlutur sem mér finnst vera til marks um hugmyndafræðilega þversögn og óskýrleika í hugsun.

Svo að ég ljúki þessu með sérstaklega lúalegri “ad-hominem” athugasemd, finnst mér að þetta fólk mætti reykja svolítið minna hass.

|

miðvikudagur, apríl 13, 2005

A Blast of the Trumpet Against the Terrible Regiment of Simians.

Einhverntímann á W. Churchill að hafa sagt að bestu rökin gegn lýðræðinu sé fimm mínútna samtal við hinn almenna kjósanda.

Mér finnst talsvert til í þessu.

Flest fólk er heimskt. Þessi misantrópía er hvorki sprottin upp úr einhvers konar biturð yfir eigin hlutskipti (enda engin ástæða til) né fordómum af nokkru tagi.
Það er einfaldlega empirísk reynsla mín að flest fólk sé heimskt, búi yfir yfirgripsmikilli vanþekkingu á öllu milli himins og jarðar, sé fordómafullt, hræsnisfullt, hneigt til gerræðislegra ákvarðana, og virði frelsi sjálfs sín og annarra að vettugi í flestum málum.
Mannlegt samfélag er einfaldlega gígantískt apabúr.

En ég tel að lausnin liggi ekki í svokallaðri “authoritarian” pólitík. Það er ekki hægt að breyta því hvernig “hjörðin” hugsar. Að minnsta kosti virkar engin ein lausn; hvorki einstaklingur né pólitísk stefna getur breytt þessu. Ég vísa í því sambandi til sögulegra raka sem flestum lesendum mínum munu vera kunnar.

Ef maður leyfir sér að hugsa, tjá sig eða haga sér öðruvísi en viðtekið er, er það barið niður á einn eða annan hátt. Það er alltaf rökstutt á sama hátt, að maður sé partur af samfélaginu.
Þegar maður veltir því fyrir sér hvernig maður hafi orðið hluti af “hjörðinni”, og ennfremur hvenær maður hafi fengið að velja það, er svar “hjarðarinnar” það að maður sé partur af henni frá upphafi, hvort sem manni líki það betur eða verr.

Og það séu takmörk frelsis einstaklingsins, að maður sé partur af stærri heild.
Hvílíkt frelsi! Hvílík náð! Hvílík hamingja!

Meðan “hjörðin” er organíseruð, hefur ríkisvald á bak við sig, sem getur sett manni bjánaleg lög sem miða að einsleitni og niðurbarsmíðum einstaklingseðlisins, er hún svo hættuleg að það liggur við að maður segi líkt og hinn frómi maður Caligúla: “óskandi að hún hefði einn háls”.

Svo róttækur er ég ekki, en ég er engu að síður þeirrar skoðunar að það beri að draga tennurnar úr samfélaginu. Ríkisvaldið.

|

mánudagur, apríl 04, 2005

Um grundvöll egóismans og muninn á honum og sólipsisma.

Egósentrismi er ekki það sama og sólipsismi. Þetta kann að virðast það sama við fyrstu sýn, en munurinn er augljós er betur er að gáð.
Sólipsismi er metafýsisk afstaða, egósentrismi siðfræðileg afstaða.

En hitt ber að viðurkenna, að bæði sólipsismi og egósentrismi/egóismi eru greinar af sama meiði, sem er tómhyggja. Egósentrismi er einungis vægara afbrigði, sem lýsir sér helst í margumræddum anarkó-indivídúalisma.

“Ósárt er stykki í annars manns flikki” á við um bæði fyrirbærin, en sólipsisminn er mun einfaldari og prímítífari. Í hvoru tveggja felst ákveðið skeytingarleysi um náungann, en sólipsismi er líkari því hátterni strúts að stinga höfðinu í sandinn.

Í egósentrisma felst ekkert slíkt. “Upplýstur” egósentrismi er a.m.k. þannig að maður viðurkenni “for argument’s sake” tilvist annars fólks. Maður getur ekki til lengdar flúið spurningar með því að taka ekki efnislega afstöðu til þeirra. (þ.e. heimurinn er ekki lögfræðilegur).

Þeir prímítífu fordómar sem egósentrismi situr undir eru yfirleitt þess efnis að egóistinn sé ætið að velta fyrir sér efnislegum hlutum, eða “eignum”.
Því má svara með því að eignir geta einnig verið Stirnerskar, þ.e. falist í félagslegum tengslum, þekkingu. Allt sem felst í karakter manns, efnislegt og óefnislegt, er “eign” manns, og ef maður ver ekki eign sína eða heldur henni við, glatar maður henni.

Ef heimurinn er blekking, af hverju ætti maður ekki að hafa gaman af honum? Af hverju ekki að taka þátt í sjónhverfingunni? Brandaranum? Það að skemmtunin sé tóm og tilgangslaus þýðir ekki að “skemmtunarleysi” sé eftirsóknarverðara. Mun nær er að hlæja að öllu saman og líta niður á allt og alla. Það geri ég.

Hví skyldu egóistar endilega þurfa að vera eins og Ebenezer Scrooge?

|

föstudagur, apríl 01, 2005

Heilagur Sade.

Þetta kann að virðast enn ein pólemísk hatursgrein mín í garð kristni. Svo er ekki, enda væri með því verið að bera í bakkafullan lækinn.

Þessir menn eru um ýmislegt líkir, þótt aðeins sé efast um faðerni annars þeirra. Báðir urðu þeir píslarvottar vegna skoðana sinna, báðir höfðu þeir mikil áhrif á hugsanagang þeirra sem á eftir komu, báðir voru þeir látnir veslast upp og deyja vegna þess að þeir fóru í taugarnar á ríkjandi valdhöfum.

Þeir höfðu báðir framið glæpi, en aðeins annar þeirra fékk mun harðari refsingu en efni stóðu til miðað við meintan glæp sinn.
Aðeins öðrum þeirra var þröngvað í hjónaband gegn vilja sínum. Aðeins annar þeirra tók beinan þátt í byltingu sem miðaði að því að breyta gildandi þjóðfélagsskipulagi.

Nánari útlegging.
Nú er komið að því að skýra þetta betur. Þegar rætt er um hinn umdeilda markgreifa er mikilvægt að greina á milli þess sem hann hélt fram í raun og þeirra fordóma sem fólk hefur um hann.

De Sade var ákafur fylgismaður hinnar svonefndu gullnu reglu, sbr. verk hans: “Samræðu prests og deyjandi manns” og “Heimspeki í svefnherberginu”. Hvernig getur maður verið “siðlaus” sem er fylgjandi henni? Um er að ræða mjög “conventional” siðferði.

Almennt virðist fólk líta á hann sem siðlausan kvalalosta-klámhund. Fyrir utan það að hann hafði gaman af því að flengja aðra og vera flengdur sjálfur, er það fjarri sanni.

Þegar afstaða er tekin til þess sem er kynferðislegt í verkum hans verður maður að hugsa um tvennt: Hver er “gerandinn”? Hvaða álit hafði de Sade á svoleiðis fólki?
Þær persónur sem haga sér verst hjá de Sade eru yfirleitt læknar, lögfræðingar, klerkar eða háaðalsmenn. Og það er ekki tilviljun.
Háaðallinn hafði látið loka hann inni, lögfræðingar höfðu framkvæmt réttarmorðið og hann hafði almenna fyrirlitningu á læknum (sem nota bene var ekki óalgengt á þeim tíma, og átti e.t.v. einhvern rétt á sér). Hann var á móti prestum af heimspekilegum ástæðum.

Persónan Justine lendir í því að vera nauðgað í sífellu og misþyrmt hrottalega af þessum stéttum. Hún reynir alltaf að vera “dyggðug” og gera það sem er “rétt”, en alltaf hefur það þær afleiðingar að þeir sem farið hafa illa með hana hljóta meiri mannvirðingar, og hún verður enn verr sett en áður.

Sú hugmynd hefur verið sett fram áður, margoft, að persónan Justine sé höfundurinn sjálfur.
Og þegar þetta er sett í samhengi við þann tíma er bókin var skrifuð, er hún í senn sjálfsævisöguleg og stéttaskipulagsleg ádeila.

Í frönsku byltingunni var de Sade áberandi í fyrstu; hann var ötull stuðningsmaður Marat, og árið 1791 voru verk hans áberandi í París. En það er ótrúlegt hvað orðið “markgreifi” getur haft mikil áhrif á aðra. Því fékk de Sade að kynnast (eins og markgreifinn af Condorcet); hann var handtekinn. Tilviljun ein réði því að hann var ekki hálshöggvinn árið 1793.

Á de Sade eru mun fleiri hliðar en við fyrstu sýn mætti ætla, en hafa ber í huga að “þeir segja mest af Ólafi konungi sem hvorki hafa heyrt hann né séð” (H.K.Laxness, Gerpla, eftir minni). Þeir sem eru hneykslaðastir á honum hafa yfirleitt lesið minnst.

Hann notaði orðið “typpi” mun sjaldnar en nútímahöfundar, sem eru upp til hópa hugmyndalitlir sporgöngumenn hans.

Mikið hefur verið reynt að nefna de Sade í sambandi við fasisma og þess háttar hugmyndafræði, en slíkt fellur ætíð um sjálft sig vegna þess að hann var einstaklega frjálslyndur í skoðunum og langt á undan sinni samtíð. Heimspeki hans, sem hafði mikil áhrif á hugsuði 19. aldar, er þess eðlis að réttast væri að frjálshyggjumenn viðurkenndu hann sem þann frumkvöðul sem hann óneitanlega var.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?