þriðjudagur, júní 21, 2005

Juliette
Ég verð að viðurkenna að bókin “Juliette” eftir markgreifann af Sade er bók hverrar innihald misbýður mér. Og ég er ýmsu vanur.
Heimspekilegu kaflarnir eru þunnir, yfirleitt bara upptalning á því hvaða perversítet tíðkast í fjarlægum heimshlutum (þ.á.m. Íslandi, þar sem skv. Sade tíðkaðist við brúðkaup að allir karlkyns brúðkaupsgestir, og fjölskyldumeðlimir beggja, ættu samfarir við brúðina í veislunni. Allt örugglega satt.) Við þetta bætast svo kynlífs/blóðbaðs-lýsingar sem eru svakalegri en nokkuð það sem ég hef séð áður. Fjöldamorð, blóðdrykkja, kanníbalismi, nekrófílía, koprófílía, pedófílía, þvagdrykkja, snöff, öllu ægir saman. Og Úlfi Sveinbjarnarsyni er ekki skemmt.

Með “Justine”var ákveðinn tilgangur. Í þeirri bók var ákveðin hugsun. En þetta… úff.
Lýsingar á kynlífi, ofbeldi eða sérvisku eru í góðu lagi fyrir mér, svo lengi sem þau þjóna einhverjum tilgangi fyrir utan það að vera órar höfundar.
Sú hugmynd að “náttúran” sem slík refsi mönnum ekki er engan veginn svo flókin eða illútskýranleg að nauðsynlegt sé að eyða hundruðum blaðsíðna í lýsingar á barnamorðum og sauráti til að hún komist til skila.

|

mánudagur, júní 20, 2005

Meira um ritfrelsi og lög
Í 125. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir: “Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara

Enda er málfrelsi aðeins til staðar ef maður segir ekkert óþægilegt. Verandi eigi með öllu saklaus í þessum efnum, vona ég að enginn sem tengsl hefur við saksóknara lesi bloggið mitt.

|

þriðjudagur, júní 14, 2005

Ritfrelsi og ólöglegur dónaskapur.

Ég hef undanfarið verið að hugleiða fyrirbærið "ritfrelsi" og afstöðu mína til þess. Eins og venjulega er mér sama um ritfrelsi annarra en vil verja mitt eigið með kjafti og klóm.
Ég þreytist hins vegar seint á að benda á hræsnina sem felst í því þegar ákveðnir hlutir eru bannaðir í þessum efnum.

Í dómafordæmi Hæstaréttar Bandaríkjanna sem sett var í máli Roth gegn BNA frá 1957, 354 U.S. 476, var slegið föstum merkilegum mælikvarða á ólöglegan dónaskap.

Sá mælikvarði byggist á því að ef "hinum almenna borgara", sem beitir gildismati samtíma síns, þykir meginumfjöllunarefni téðs efnis höfða til syndsamlegra hneigða, fellur dónaskapur hvorki undir fyrsta né fjórtánda viðauka stjórnarskrárinnar, en í þeim felst ritfrelsi.
Á ensku er þessi tilbúni mælikvarði svona: "The standard for judging obscenity, adequate to withstand the charge of constitutional infirmity, is whether, to the average person, applying contemporary community standards, the dominant theme of the material, taken as a whole, appeals to prurient interest." (fengið af síðunni FindLaw.com)

Í fysta lagi spyr maður sig: Hvað felst í hugtakinu "hinn almenni borgari"?
Í öðru lagi: Hvert er gildismat samtíma "hins almenna borgara"?
Í þriðja lagi: Hvernig á að meta hvert meginumfjöllunarefni efnisins er? (Hvaða túlkun á verkinu ber að leggja til gundvallar?)
í fjórða lagi: Hvað eru "syndsamlegar hneigðir"?
í fimmta lagi: Hvað höfðar til "syndsamlegra hneigða"?

Þegar um er að ræða fimm mismunandi matsatriði, öll þeirra óskýr, vaknar sú spurning hvort ritfrelsi sé í raun verndað í BNA eftir að þessi dómur gekk, en þau ákvæði fyrsta og fjórtánda stjórnarskrárviðaukans sem þessi mælikvarði á að skýra eru mjög opin og víðtæk.
Svo sem hæstaréttardómararnir William Douglas og Hugo Black sögðu í séráliti sínu eru hvergi til gögn sem sýna að hlutir sem innihalda dónaskap og klám eigi að vera undanþegnir þessum greinum.

Samt sem áður fór sem fór, og mælikvarðinn varð yfirsterkari. (Svo virðist sem íslenskir dómarar séu ekki einir um að taka sér löggjafarvald...)

Enda reyndist umræddur mælikvarði vera meingallaður í framkvæmd. Meinleg gloppa hafði verið í honum í upphafi, svo sem sjá má í dómi sem gekk 1966 í máli Mishkin gegn New York, 383 U.S. 502, En þá var kveðið uppúr um það að þótt sadómasókismi o.þ.h. höfði ekki til syndsamlegra hneigða hins "almenna borgara", sé Roth-mælikvarðanum SAMT SEM ÁÐUR fullnægt.

Í máli Ginzburg et al. gegn BNA, 383 U.S. 463 gekk dómursem kveðinn var upp sama dag en ég vil hafa sem fæst orð um hann önnur en þau sem ég set hér, uppúr sératkvæði Hugo Black, en hann var þeirrar skoðunar að stjórnarskrána beri að skýra bókstaflega:

"Only one stark fact emerges with clarity out of the confusing welter of opinions and thousands of words written in this and two other cases today. That fact is that Ginzburg, petitioner here, is now finally and authoritatively condemned to serve five years in prison for distributing printed matter about sex which neither Ginzburg nor anyone else could possibly have known to be criminal."

Í síðasta málinu sem ég rek hérna, “kyndilberum frelsisins”, BNA, til háðungar,
A Book Named "John Cleland's Memoirs of a Woman of Pleasure" v. Attorney General of Com. of Massachusetts, 383 U.S. 413, hafði ríkið Massachusetts nýtt sér lagaheimild til að banna téða bók, og taldi sig hafa gert slíkt með stoð í ofangreindum fordæmum.

(Um er að ræða einhverja leiðinlegustu bók sem ég hef gert tilraun til að lesa. Hún er skrifuð um 1740 af John Cleland. Hún er þekktari undir nafninu "Fanny Hill".)

Í dómsorðinu, sem þrír dómarar stóðu að, segir:
"Under the test in Roth v. United States, 354 U.S. 476 , as elaborated in subsequent cases, each of three elements must independently be satisfied before a book can be held obscene: (a) the dominant theme of the material taken as a whole appeals to a prurient interest in sex; (b) the material is patently offensive because it affronts contemporary community standards relating to the description or representation of sexual matters; and (c) the material is utterly without redeeming social value."

Þar sem dómstólar í Massachusetts höfðu sagt að bókin hefði afar lítið bókmenntalegt gildi, en ekki að hún hefði ekki neitt, höfðu þeir rangtúlkað "stjórnarskrána".
(svo heldur fólk að íslenskir dómarar séu heimskir...)

Samantekt:
Fyrst setur Hæstiréttur BNA lög sem eru jafngild stjórnarskránni, svo fattar hann að lögin eru ekki nógu víðtæk, svo hann setur þau upp á nýtt, harðari, svo skýrir hann vitleysuna uppúr sér bókstaflega (sem var EKKI gert hvað varðar hinn raunverulega texta stjórnarskrárinnar í Roth-málinu) og lendir í ógöngum. Ef einhver getur bent mér á svipað stórvirki úr íslenskri dómaframkvæmd mætti sá hinn sami að benda mér á það.

(Þær upplýsingar sem ég nota um bandaríska dómaframkvæmd eru fengnar af hinni ágætu vefsíðu Findlaw.com)

|

mánudagur, júní 13, 2005

Vangaveltur um siðferði og ríkisvald, eða "hvers vegna er ég á móti lögum", 3 hluti. The Grand Finale.

Eftir að hafa slegið svo snöfurlega fram þeirri expósisjón á skoðunum mínum á réttu og röngu sem raun ber vitni, tel ég rétt að fjalla nánar um “afleiðingar” þess sem ég er fylgjandi. Niðurlagningu ríkisins og ógildi allra laga.

1. Fyrsta spurningin sem ég myndi spyrja sjálfan mig að er að sjálfsögðu:
“Er þér sama um afleiðingarnar?”

Og þeirri spurningu myndi ég að sjálfsögðu svara á þá leið að það sé augljóst; verandi siðferðislega “öðruvísi”, ofurindivídúalískur elítisti. Mér er í raun og veru sama um yfirgnæfandi meirihluta fólks, og ég nenni ekki að lifa í þeirri blekkingu að ég láti mér ekki í raun og veru í léttu rúmi liggja hvað verður um öll svöngu börnin í “Fjarskanistan” og þvíumlíkt. Ef ég reyndi annaðhvort að hafa skoðun á því eða bera einhverjar tilfinningar í brjósti þegar ég hugsa um örlög þeirra, væri ég í senn að færast of mikið í fang og fara illa með mig sjálfan persónulega.

2. Önnur spurningin væri væntanlega eitthvað á þessa leið:
“burtséð frá þeirri staðreynd að þér er sama um afleiðingarnar, má þá ekki gera ráð fyrir því að þú hafir leitt hugann að því hverjar þær yrðu, verandi maður djúphugull og margfróður? (alltaf gaman að taka viðtal við sjálfan sig)

Og verandi maður magnanimissimus, myndi ég svara spurningunni og þá með því að segja hreint út að allt myndi að sjálfsögðu fara fjandans til. Á heildina litið. Ég myndi hins vegar benda á það að helstu stórvirki mannkynssögunnar hafa einmitt verið unnin við slíkar aðstæður. Glæsilegustu minnisvarðar einstaklinga hafa orðið til við slíkar aðstæður. Athyglisverðustu tímabil sögunnar hafa verið þessu marki brennd. Hvers er misst? Frekar kysi ég að vera uppi á áhugaverðum tímum þar sem ójafnvægi ríkir en að vera uppi á einhverjum “rational” jafnvægis-samhjálpar-stöðlunar-velferðar-evrópusambands-leiðindatímum.
Og hana nú.

3. Næsta spurning væri væntanlega á þá leið að fyrst mér sé sama um flest fólk, af hverju vil ég þá neyða það til að vera frjálst?

Þeirri spurningu myndi ég einnig svara á brilljant hátt (að eigin mati). Ég er ekki að halda því fram að allt fólk eigi að vera frjálst, enda eru slíkar hugmyndir illrökstyðjanlegur, fílanthrópískur, pólitískt korrekt kjaftavaðall. Ég er ekki að mæla með einhverri algildri reglu (eða regluskorti). Aðeins er um að ræða útópíska sýn manns sem er mjög viss um eigin ágæti.

Ef öllu því sem á undan er gengið er tekið sem siðferðilegri vandlætingu á því að fólk sé undirokað, er um þreytandi misskilning að ræða. Þetta eru aðeins persónuleg mótmæli sem undirritaður beinir gegn því að vera undirokaður sjálfur, og þótt hann sýni undirgefni og hlýðni við þennan hlægilega barnaskap, lög og reglu, í verki er ekki þar með sagt að hann sætti sig við hann og þurfi að vera fylgjandi honum.

Um er að ræða hóflegt, bitlaust andóf mitt gegn því að einstaklingurinn (og þá ÉG) sé undirokaður af stórri bavíanahjörð, hópi fáráðlinga sem kemur fram undir nafni ríkisvalds og sýnir af sér þann hroka að ætlast til fórnfýsi minnar gagnvart sér, neyðir mig til að greiða skatta, bannar mér að gera sumt, setur höft og skilyrði á annað, og hefur allan tímann svo siðferðilega “rétt” fyrir sér að það vekur hjá mér viðbjóð.

|

fimmtudagur, júní 02, 2005

Vangaveltur um siðferði og ríkisvald eða "hvers vegna er ég á móti lögum", 2. hluti.

Í flestum almennum skilgreiningum á ríkisvaldi er það viðtekið að það eitt hafi rétt til valdbeitingar á því svæði er því er helgað.
Þetta svonefnda einkenni á ríkisvaldi er ekki frá tímum lýðræðis, heldur einveldis, og rökin fyrir því, og þá á ég ekki við þau sem lýðurinn hefur alla tíð verið mataður með, eru reist á persónulegum hagkvæmnissjónarmiðum og því að hafa sem öruggasta stjórn á aðli, kirkju og bændum.
Þegar breytingar þær hafa almennt orðið á stjórnskipun sem orðið hafa á vesturlöndum síðustu 200 árin, eru þau rök léttvægari. Þau siðferðilegu rök sem fíflin voru mötuð með hafa orðið ofan á, og hin raunverulegu rök sem falla flestum miður í geð, Machiavellianisminn og járnhællinn, hafa látið undan.

Sú spurning vaknar í framhaldinu á hvaða forsendum lýðræðisríki beita löggjafarvaldi sínu, öðrum en siðferðilegum?
Og hvar passar einstaklingurinn inn í það dæmi allt saman?

Fólk hugsar ekki einu sinni um það af hverju lögin eru eins og þau eru, og þaðan af síður véfengir það réttmæti þess að einstaklegum hagsmunum þess sé ef til vill fórnað fyrir óskilgreinda “heildarhagsmuni”.
Það valdboð sem var reist á “ég ræð” hefur í lýðræði vikið fyrir því sem byggist á “við, meirihlutinn höfum rétt fyrir okkur”. Að sjálfsögðu er um einföldun að ræða, en í stórum dráttum hefur þetta orðið svona.

Það að hafa “rangt” fyrir sér sem einstaklingur er í mínum augum mikilsverðara en að hafa “rétt” fyrir sér sem ekki neitt.

|

miðvikudagur, júní 01, 2005

Vangaveltur um siðferði og ríkisvald, eða "hvers vegna er ég á móti lögum", 1. Hluti

Eins og lesendum mínum mun vera kunnugt, er undirritaður mjög á móti hvers kyns hugmyndum um náttúrurétt. Ef slíkur "náttúruréttur" er til, afmarkast hann við hluti eins og þyngdaraflið o.þ.h. og reynir því lítið á hann í júridískri umræðu.
En tengsl siðferðis við löggjöf er flókið efni. Í sjálfu sér mætti segja að engin lög séu laus við að vera tengd siðferðislegu gildismati á einn eða annan hátt.

T.d. á það að heita "ljótt" að stela, þess vegna er það bannað.
"Allir menn eiga rétt til frelsis og mannhelgi..." (1.mgr. 5. gr. laga nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu) er einnig dæmi um siðferði í löggjöf.

---
Það segir sig sjálft að þau lög sem ekki hafa neinn tilgang annan en að telja upp staðreyndir um heiminn eru "óþörf", og þá í þeim skilningi að ef um er að ræða óumdeilanlega staðreynd, er tilgangur lögfestingar hennar enginn.

Þar af leiðandi eru lög, að því marki sem þau telja ekki upp óumdeilanlegar staðreyndir, eins konar yfirlýsing sem gengur í berhögg við "staðreyndir" heimsins í kringum okkur. Yfirlýsing sem ætlað er að breyta raunveruleikanum.

Siðferði er ekki hluti af objektífum raunveruleika, heldur er það í hæsta máta súbjektíft. Það er hægt að fremja alls kyns "ódæði" án þess að hinn objektífi raunveruleiki bregðist við því á nokkurn hátt. Viðbrögð brotaþola, þ.e. hefndin, eru hins vegar súbjektíf í hæsta máta.
Þjófnaður kemur í sjálfu sér engum við nema þeim sem stelur og þeim sem stolið er frá, og um er að ræða afstæðan verknað á fleiri vegu en einn.
Þegar lög eru sett er hið súbjektífa með yfirlýsingu gert objektíft, t.d. það að það skuli vera bannað að stela, og hið svonefnda "ríkisvald" tekur að sér "viðbrögðin"; það sem ætti annars að vera upp á "brotaþolann" komið.

Lög eru í vissum skilningi "brot gegn náttúrunni"; þau eru manngert stjórntæki. Í sjálfu sér skilgreina þau tilvist þeirra sem við þau lifa á þrengri hátt en efni standa til skv. "náttúrunni", og skylda einstaklinginn til að láta sem þær siðferðislegu hugmyndir sem þau byggja á séu óumdeilanlegar, ófrávíkjanlegar staðreyndir.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?