föstudagur, september 23, 2005

Um skítamál

Ég er svo hamingjusamur maður að það fer ekki lengur í taugarnar á mér þegar fólk reynir að gæta hagsmuna sinna. Þegar fólk er dónalegt, er ég aðeins pirraður yfir dónaskapnum, en ekki því þegar fólk vill fá sínu framgengt.

Það er algengt að fólk láti það fara verulega mikið í taugarnar á sér þegar deilur um litlar upphæðir, 1.500 krónur eða svo, kosta það 3 símtöl og 15 mínútur af tíma þess. Þegar um er að ræða svo lítil mál verður hugsar maður óhjákvæmilega með sér að þar hafi maður eytt tíma og orku til einskis.

Slík mál eru leiðinleg. Hagsmunirnir eru svo litlir að þegar maður hugsar um það eftir á, hefði maður e.t.v. átt að greiða kröfuna sjálfur, úr eigin vasa, bara til þess að losna við vesenið.

En það er nú einu sinni svo að ef maður gætir ekki eigin hagsmuna, gerir það enginn fyrir mann. Að minnsta kosti er ekki hægt að gera ráð fyrir því.

Þess vegna afgreiðir maður þetta möglunarlaust. Sú ímyndun hver svipur kverúlantsins verður þegar hann fær reikninginn borgar það allt saman upp, og meira en það.

Því maður gætir hagsmuna sinna jú sjálfur, rétt eins og téður kverúlant.


|

mánudagur, september 19, 2005

Móralítet

Þar sem ég virðist ekki gera neitt annað á þessu bloggi en að endurtaka sjálfan mig, finnst mér rétt að árétta skoðanir mínar á stöðu siðfræðinnar.
a) Siðferði er ekki hluti af manninum.
b) Siðferði er verk mannsins.
c) Siðferði er leið mannsins til að stjórna hátterni síns sjálfs og annarra.

1) Svo ég útskýri þetta nánar, er þetta eins og ef maðurinn B byggir húsið E, er E ekki endilega hluti af B. Heildin “B+E” verður ekki til þótt B búi til E.

Ef við föllumst ekki á þetta, er allt það sem við búum til, gerum eða hugsum, hluti af okkur sjálfum.
Þegar ég var fimm ára bjó ég til styttu úr leir. Það að búa til styttu úr glorífíseraðri drullu telst einmitt sérstaklega uppbyggileg iðja fyrir fólk á þessum aldri. Þessi tiltekna stytta var af manni. Að minnsta kosti taldi ég mér trú um að hún væri það. Ég málaði hana bláa. Ef þessi litli, blái maður væri nú partur af mér, eins konar hómonkúlus, væri sú staðreynd að ég henti honum fyrir mörgum árum mjög dapurleg. Ég hef þar með glatað hluta af sjálfum mér.

Það að drepa ekki annað fólk, eða það að hafa velferðarkerfi, er ekki heldur partur af manninum. Þetta er allt saman dæmi um aðgerðir og tilbúning mannsins. Ef maður telur allar aðgerðir og hugsanir mannsins vera part af honum, og þá á grundvelli einstaklingsins, er maður kominn í ógöngur.

Ef maðurinn er skilgreindur svo að hann sé “kjötflikki + allar hugsanir þess + öll reynsla þess + allt það sem það hefur gert” er maður komin út í hálfgerða theólógíu. Ef um er að ræða mann sem hefur verið bankagjaldkeri alla sína hundstíð er viðkomandi þar af leiðandi minni maður en þeir sem hafa hugsað meira, reynt fleira og gert eitthvað sem meira er varið í. Og þá er maður óneitanlega kominn út í elítisma á grundvelli bæði vitsmuna (sem ég er fyrir mitt leyti sammála), aldurs, reynslu, eirðarleysis og dugnaðar.
Þar af leiðandi væri hinn ídeal maður blanda af Platóni, Stakhanov og Megasi.

2) svo að ég samsami þetta við siðferði, er það einmitt svo að maðurinn býr til sitt siðferði. (Þetta er, fyrir áhugasama, einn af örfáum punktum þar sem ég er sammála Kant.)

Siðferði er eins og löggjöf sem ekki er nægilega vel birt.
Siðferði er eins og réttarkerfi þar sem dómarinn er hugarburður og ekki er neitt réttaröryggi.
Siðferði er eins og náttúruréttur, og jafn hræðilega ólógískt, trúarlegt fyrirbæri.

3) Siðferði er tæki. Siðferði er að mörgu leyti sama fyrirbæri og lög, aðeins óljósara. Foucault leit svo á að þetta væri allt saman til þess að berja á náunganum, og þeim sem ekki fellur að hinni stöðluðu mynd. Ef hann hefði ekki verið að móralísera í sama mund, gæti maður hugsað sér að gefa hugmyndum hans nánari gaum. Staða mín er önnur en staða Foucault að þvi leyti að ég er ekki fullur af sjálfshatri og minnimáttarkennd.

Hlutlaus greining á siðferði, á þá leið að um sé að ræða tæki, krefst þess að maður taki ekki afstöðu til siðferðis á þeim grundvelli að um sé að ræða “gott og illt”, “réttlátt og óréttlátt”, o.s.frv. Með slíku væri maður hættur að leggja stund á heimspeki og farinn að leggja stund á trúarbragðafræði. Maður væri farinn að styðjast við (margumrætt) kennivald.

Líf manns er mjög flókið, það er ofætlun manni að lifa því sjálfur og treysta á sig sjálfan, og þar af leiðandi leitar maður skjóls með því að setja upp flatar meginreglur í stað þess að taka ábyrgð á sjálfum sér, lífi sínu, tilvist sinni, eins og það kemur fyrir hverju sinni. Þetta “hjálpar” manni ekki aðeins til að leggja dóm á eigin háttsemi, heldur einnig á hátterni annarra. Þegar einhver hagar sér ekki í samræmi við “siðferðið” er það nóg til þess að barið verði á viðkomandi.

Án þess að ég leggi dóm á það hvort það sé rétt eða rangt, er þetta allt saman að mínu mati “auðvelda leiðin út”, einföldun á tilvist mannsins. Siðferði er andlegur hjólastóll.

Siðferði er ekki hluti af manni fremur en stál og hnífur er hluti af verkamanninum, skurðgrafan hluti af skurðgröfukallinum eða litli blái maðurinn hluti af mér.

Og hana nú.


|

mánudagur, september 12, 2005

Interpolation:

Það að haga lífi sínu í samræmi við það að maður telji sig hafa skilning á mannlegu samfélagi gerir mann annaðhvort að pollýönnu með blæðandi hjarta eða að vitsmunalegum sósíópata...

Svo að ég útskýri það betur sem ég á við er þetta í praxis það að maður setur sig á háan hest.

Ég er dæmi um hið síðarnefnda, og sanntrúaðir einstaklingar um hið fyrrnefnda. Í hvoru tveggja felst að sjálfsögðu að vera montrass og besserwisser.

Hið fyrrnefnda, pollýönnu-trúarleiðin, felur í sér kærleik og þolinmæði gagnvart heimskum lýðnum sem ekki veit hvernig hann á að haga sér.

Hið síðarnefnda, sósíópatían, felur í sér ýmist áhugaleysi eða hræðslu við slíkt hið sama.

Það að fólk sé skítugir ormar sem skríða á jörðinni er í meginatriðum rétt.

En fólk er líka samansafn skítugra orma með ímyndunarafl og vilja.

Og hvar kemur frelsið inn í þetta allt saman?

Jú, með því að sjóða saman, á fremur barnalegan hátt, kenningar Nietzsche um ofurmennið og egóisma Stirners, fær maður út, í besta falli, mann í uppreisn. Mann sem er að sjálfsögðu ekki frjáls, en vill verða það.

Gegn þessu vinnur sú hneigð mannsins sem ég hef áður vikið að, sú að binda sig niður, vera ófrjáls, láta eitthvað annað stýra ákvarðanatöku. Komast í frí frá sjálfum sér.

Egóismi og vilji til valds verður alltaf barinn niður þegar til staðar er mannlegt samfélag. Þetta er hin eilífa barátta mannlegs samfélags. Borgarastyrjöldin endalausa. Nietzsche sá þetta allt saman.

Það er ofætlun einum manni að vera einstaklingur.


|

miðvikudagur, september 07, 2005

Árétting um skrif mín

Til að botna nokkuð í því sem ég á við þarf maður helst að lesa það í samhengi við mín eigin fyrri skrif, kenningar David Hume, Ludwig Wittgenstein, Martin Heidegger, J-P. Sartre, F. Nietzsche, Max Stirner o.fl. ofl.

Ef einhverja siðferðilega vandlætingu er að finna í skrifum mínum er það annaðhvort til marks um að ég skrifi lélegan stíl eða lesandi hafi ekki lesið mig nógu vandlega (t.d. færslur mínar frá í mars 2004).

Þegar ég ræði um siðferði, siðfræði, réttlæti og siðfræðilega rökræðu tek ég ekki siðferðilega afstöðu heldur reyni ég að að vera sem deskriptífastur, og forðast normatífa hugsun. Þegar ég tala teoritískt er ég yfirleitt frekar að lýsa og analýsera frá mínu sjónarhorni en að setja fram reglur.

Vegna þess hve veröldin er óskiljanleg reynir fólk að komast í frí frá henni, ef svo má að orði komast. Komast í frí frá tilfinningum sínum.
Það er tilgangslaust að reyna að fara að dæmi Sókratesar og “koma lagi á hugsanir sínar” hvað varðar rétt og rangt, réttlæti o.fl.
Tilgangslaust vegna þess hve tilfinningar lúta oft óskiljanlegum, irrational lögmálum (ef lögmál skyldi kalla). Það er fyrirfram töpuð barátta.

Svo að ég noti dæmisögu Esóps um refinn og vínberin (sem Baldvin notaði reyndar einnig í síðasta kommenti sínum) útvegar kennivaldið hina siðferðislegu rationaliseringu þess að maður lætur ekki undan tilfinningum sínum. Þetta er eins konar bæling. (Berin eru súr. Ég verð óhamingjusöm/samur ef ég læt undan tilfinningum mínum.)

Svo ég taki raunhæft dæmi.
Laganemi, sem er einkar snjall, myndarlegur og skemmtilegur einstaklingur, horfir út um gluggann á Lögbergi. Hann sér hvar nokkrar nunnur standa álengdar, gæðandi sér á Sóma-langlokum. Þar sem laganeminn hefur talsverða fyrirlitningu á lífsviðhorfum nunnanna dettur honum í hug að það væri gaman að stríða þeim örlítið.
Og þá gerir laganeminn annað af tvennu:

a) lætur undan tilfinningum sínum, hleypur út eins og fætur toga, hlær geðveikislegum hlátri og berar kynfæri sín fyrir dauðhræddum nunnunum.
b) gerir sér grein fyrir því að slíkt væri í senn dónalegt og ógeðfellt (kennivald, svo ég stafi það næstum) og ákveður að “hyggilegast” væri að láta ekki verða af slíku. Að sinni.

Laganeminn ákveður þarna að fara eftir kennivaldinu, í stað þess að láta stjórnast af tilfinningum sínum. Í þessu tilviki, eins og svo oft, valdi hann auðveldu leiðina.

Ég tel að “kennivald” sé mun víðtækara fyrirbæri en margir siðfræðingar, og eigi við í nánast öllum tilvikum.

Réttlæti er svo sannarlega skurðgoð í þeim skilningi að það er manngert og það er dýrkað. Það er ekki hluti af manninum, nota bene, heldur líkara fötum sem hann klæðist. Svo ég sýni mörk þessa hugtaks í mínum huga, tel ég “guð” og “siðferði” líka skurðgoð. E.k. Gríma.

Það sem ég á við með “persónulegri ákvarðanatöku”, sem er vissulega ekki gallalaust hugtak, er að tekin sé ákvörðun út frá tilfinningum, duttlungum, án stuðnings við kennivald, í hvaða formi sem það er.

Tek ég einhversstaðar afstöðu til þess hvort er siðferðilega rétt? Tek ég einhverja afstöðu til þess hvort annað sé fyrirlitlegra en hitt? Hvort er betra, að vera hömlulaus eða bældur?

Ég fjalla hvergi um það. Ég fjalla hvergi um það að það sé eftirsóknarverðara í sjálfu sér að vera sjálfstæður en að vera ósjálfstæður.
Ég geri svo sannarlega grein fyrir minni eigin afstöðu til þess, en ekki gerist ég svo hrokafullur að reyna að rökstyðja hana. Það get ég ekki án þess að uppúr mér velli merkingarlaust þvaður.

Það að eitthvað sé siðferðilega gott eða slæmt er án undantekningar merkingarlaust kjaftæði (sbr. Wittgenstein, einhver?).
Við tilfinningum er hins vegar ekkert hægt að segja.

Siðfræði er rationalisering á því sem er irrational. Tilfinningum.

Þegar ég hlæ hæðnishlátri að því þegar fólk “rökstyður” tilfinningar sínar, er ég ekki með því að hafna tilfinningum sem slíkum. Ég er að hlæja að þessum tilburðum, þessum leikaraskap.
Það sem mér finnst skrýtnast er það að nokkur skuli geta óhlæjandi haldið fram þessum heimskulegu siðferðislögmálum, hvort sem um er að ræða það hvernig halda ber á hnífapörum eða í hvaða líkamsop megi stinga getnaðarlimi.

Mér finnst þetta beinlínis fyndið. Ég er partur af þessari tilveru og er hræsnisfullt fífl eins og þið hin.
En að minnsta kosti geri ég mér engar grillur um að þetta sé “rational”.


Heilagur Úlfur.




Viðauki: Heimurinn í draumum Úlfs Sveinbjarnarsonar.
Ef ég reyni að ímynda mér heiminn eins og ég vildi sjá hann væri ég að færast of mikið í fang. Ég reyni það ekki einusinni. Heimurinn sjálfur er svo langt fyrir ofan minn skilning að það væri beinlínis hlægilegt að reyna það.

Svo að ég ímyndi mér þetta til gamans, væri hann réttlætislaus. Hann væri líka laus við, þverslaufur, rökfræði, púðluhunda, stærðfræði, vínarvalsa, orsakarsambönd og bleikar skyrtur.
Hann myndi að sjálfsögðu ekki ganga upp, en hver segir að hlutirnir þurfi að vera “rational”? Hvað þá að ÉG þurfi þess?

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?