þriðjudagur, október 18, 2005

Jibbí, fasssteigniiir…

Ég er um þessar mundir á kafi í fasteignum á tvennan hátt.

Annars vegar í störfum mínum, þar sem ég vinn við skjalagerð á fasteignasölu.
Hins vegar sem væntanlegur kaupandi.

Ég er að svipast um eftir eign, og er nokkuð sérvitur í þeim efnum sem öðrum. En þrátt fyrir að vera vel kunnugur fasteignaviðskiptum vegna starfs míns verð ég að viðurkenna ákveðna undrun mína hvað varðar lán og kjörin á þeim.

Þegar um er að ræða verð- og vísitölutryggingu, ofurhá greiðslugjöld, tveggja prósentna upp- og innágreiðslugjöld, viðskiptabindingu og einhliða “endurskoðun” vaxta á fimm ára fresti er ekki annað hægt en að græða á dæminu.
Ég hefði áhuga á að stofna banka ætti ég tök á því. Þá myndi ég sko… já.

Sem kaupandi held ég að ég haldi mig við Íbúðalánasjóð, jafnmikill hatursmaður þess batterís og ég er.
Því ég vil ekki gangast undir svona rugl-skilmála.

|

föstudagur, október 07, 2005

Hugleiðingar um refsingar, seinni hluti

Hefndin

Þar sem hugmyndirnar á bak við refsingar eru svo fátæklegar sem raun ber vitni er í raun meginskekkja að telja að þegar maður er kærður fyrir líkamsárás sé fórnarlambið að fá sínu fullnægt.

Öll reiðin og þau sárindi sem því fylgja að vera limlestur eða nauðgað eru kæfð niður. Fórnarlambinu kemur ekki við hvort glæpamanninum er refsað eða ekki; það hefur aðeins möguleika á því að krefjast bóta um leið og ríkið sækir manninn til saka, sbr. áðurnefnda dóma.

Ef ég yrði einhvern tímann brotaþoli, mundi ég tæplega una því að:

a) Það væri látið eins og ég hafi ekki orðið fyrir brotinu, heldur samfélagið sjálft.

b) Glæpamaðurinn ætti kost á launaðri vinnu og menntun meðan á refsingu hans stendur, á minn kostnað sem skattgreiðanda.

c) Glæpamaðurinn fengi að lokinni afplánun félagslega aðstoð frá því sama “samfélagi” og eignaði sér brotið, á minn kostnað sem skattgreiðanda.

d) Ég mætti ekki hefna mín grimmilega, ætti ég þess kost.

Og ef hefndin er “slæm”, af hverju hefnir samfélagið sín þá? Af hverju er mönnum launað fyrir að brjóta af sér, og brotaþola bannað að bregðast við?

Þessi kristilegheit um að hefndin sé af hinu illa eru að mínu mati beinlínis hlægileg. Maður finnur ekki fyrir neinni sektarkennd vegna þess að hafa hefnt sín nema manni hafi verið innrætt það frá upphafi að hefndin sé ill.

Ef ríkið þarf endilega að stjórna þessu, af hverju er ekki rétti A til að leita hefnda á B þinglýst? Þetta sé þannig skráð og regúlerað, í stað þess að vera með puttana í refsiákvörðuninni, sem í sjálfu sér kemur hinu opinbera ekkert við.


|

miðvikudagur, október 05, 2005

Hugleiðingar um refsingar, fyrri hluti.

Um skort á hugmyndafræðilegum grundvelli refsinga á Íslandi.

Ef maður tekur þá afstöðu til þess þegar A gerir B mein að tilefnislausu. Er það þá ekki “svívirðilegra” ef A gerir B mein þótt hann sé ekki neyddur til þess og hafi ekki neina ánægju af því? Ég spyr móralska lesendur mína þeirrar spurningar.

Ef maður til dæmis sér mann með þverslaufu á almannafæri, drepur hann, rænir og fær út úr þeim verknaði kynferðislega fullnægingu, er það gert af ákveðinni ástæðu.

Ef maður sér mann úti á götu sem ekkert sést athugavert við, og drepur hann án þess að hafa gaman af því, og sleppir því að ræna hann, er það tilefnislaust.

Á Íslandi eru aðeins tvær tegundir refsinga. Það eru engar opinberar aftökur hér á landi, engar hýðingar, ekkert annað en það að menn eru lokaðir inni eða þurfa að greiða sekt. Lof sé Mannréttindasáttmála Evrópu og dýrð.

---

Þegar mönnum er refsað eru þeir beittir ofbeldi eða kúgun af hendi hins opinbera, sem hefur einkarétt á því að beita slíku. Hið opinbera hefur engra beinna hagsmuna að gæta af því að viðkomandi sé refsað, þvert á móti er það kostnaðarsamt.

Þá reynir maður að finna einhverja aðra ástæðu fyrir refsingunum. Eru það hagsmunir brotaþola?

Í því sambandi vísa ég í tvo Hæstaréttardóma, í máli 178/2001 og 49/2005, þar sem þeirri spurningu er svarað skýrt á þá leið að brotaþoli hafi ekki beina hagsmuni af því að brotamanninum sé refsað.

Hið síðasta sem athugað er hlýtur þá að vera það hvort hið opinbera hafi ánægju af refsingum.

Þegar við samsömum höfunda kerfisins við “hið opinbera” í þessu sambandi, er því ekki svo farið. Hagsmunirnir sem vernda á eru óljósir, kostnaðurinn gífurlegur.

Hver er þá bættari þegar manneskja er lokuð inni, eða látin borga sekt? Ekki má brotaþolinn telja það sína hagsmuni, sbr. ofangreinda dóma.

Er það “samfélagið”? “Náttúran”? “guð”?

Eru það varnaðaráhrif sem leitað er eftir? Væri þá ekki rétt að fara sæmilega árangursríka leið til þess, og gera skrokkinn á glæpamönnunum svo lélegan að frekari brot séu ólíkleg, frekar en að fara þá leið að loka þá inni með bældar hvatir, heitar máltíðir og líkamsræktartæki?

Hin sérstöku varnaðaráhrif núverandi refsinga eru hverfandi, og hin almennu varnaðaráhrif eru lítil þegar hægt er að hálfdrepa manneskju og fá skilorð.

---

Mér finnst þetta til marks um hugmyndaleysi. Ég skildi þetta fyrst þegar mér varð hugsað til þeirrar víddar í refsingum sem líklega skipti mestu máli af öllu hér forðum.

Þegar manneskja er hýdd, limlest eða drepin er slíkt hin ágætasta skemmtun fyrir lýðinn, og jafnframt hafa ýmsir einstaklingar haft hreina ánægju af slíkum sýningum.

Svo að þetta sé sagt hreint út, er meiri tilgangur með slíkum refsingum en því að loka einhvern inni eða rukka hann.

Ef það mega ekki vera hagsmunir brotaþola sem ráða för, og ekki samfélagsins (sú hugmynd er absúrd vegna kostnaðarins, skilvirkninnar og skilgreiningarvandkvæða), og sá sem refsar má ekki hafa gaman af því (því sadismi er “að sjálfsögðu” siðferðislega rangur), hver er þá tilgangurinn með refsingum, annar en hinn augljósi; hinn sangi, hálf-píetíski siðferðisgrautur, kryddaður með vænum skammti af afneitun?


|

mánudagur, október 03, 2005

Palladómur

Mér leiðist í tímum hjá kennurum sem ekkert gera annað en að þylja upp lagagreinar sem maður hefur þegar lesið og reglugerðir sem maður er þegar kunnugur.
Sérstaklega þegar umræddir kennarar líta út eins og blanda af múrmeldýri og manni og kæmust fyrir í vasanum á manni.

|
Ég sá nunnurnar aftur í dag.
Ég skal, sko...
Ég skal.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?