þriðjudagur, nóvember 29, 2005
Öppdeit um íbúðarmál.
Kaup hafa tekist (=kauptilboð samþykkt, á mannamáli) milli mín og verktaka nokkurs um kaup mín á íbúð nokkurri í nýbyggingu í 101 Reykjavík. Íbúðina fæ ég á góðum kjörum.
Ég vinn nú hörðum höndum að því að gerast skuldari. Afhending íbúðarinnar er ekki langt undan, og ég þarf að púsla saman ákveðnum þáttum kaupanna til þess að:
a) Ég þurfi ekki að borga meiri peninga en nauðsynlegt er
b) Sem minnst af því fari í skatta.
c) Ég verði ánægður með ákveðna lausn er varðar millivegg og hurð.
Þá ætti ég að geta skakklappast úr hreiðrinu eftir jól.
þriðjudagur, nóvember 08, 2005
Metamorphoses:
Sjaldan, örsjaldan, kemur það fyrir að fíbbl (=kúnnar) setja sig á háan hest gagnvart mér fyrir aldurs míns sakir. Ég er jú aðeins tæplega 22 ára.
Þegar slíkt gerist kemur það mér ekki í gott skap, sér í lagi þar sem ég geri í því að koma fyrir eins og ég sé eldri en ég er, oftast með góðum árangri. Ég reyni að vera með mitt á hreinu og vera viðbúinn öllu mögulegu (og ómögulegu) sem komið getur upp.
Þegar ég er kallaður “baddn” eða eitthvað þaðan af verra, verður á mér mjög sérstök breyting.
Ég breytist í snyrtilega klætt, kurteist óargadýr, nokkuð líkt þessu. Eins og venjulega þegar ég tala í senn niður til fólks og þéra það verður það til þess að það lítur út eins og það hafi orðið vandræðalegt slys er varðar meltingarkerfi þess.
Því það er betra að vera ungur og stórkostlega gáfaður en að vera fullorðið fíbbl.