fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Morgunverður ungs manns á uppleið
Prósakk, skolað niður með espressó...

|

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Pfistill.

Tilgangsleysi lífs, siðferðis, tilfinninga, daglegra athafna, og tilverunnar sjálfrar er ekki nýtt efni í bókmenntum. Það eru margir höfundar sem hafa tekið þetta og blandað við eigin kynferðislegu fixation, áhrifarík atvik í barnæsku sinni eða leiðinlega lífsreynslu og fengið út skáldsögu.

Og svo sannarlega tekst með slíkri skáldsögu oftar en ekki að hreyfa við ákveðnum strengjum í manni.

Sumir hætta í miðju kafi að lesa. Þeir líta undan, og geta ekki, vilja ekki, samsama tilvist sína þeirri dökku mynd sem dregin er upp í bókinni. Sú leið að velta sér upp úr því ógeði sem bókin hafði að geyma og býsnast yfir ósmekklegheitum höfundarins er auðveldari, og ódýrari, bæði tilfinningalega og vitsmunalega.

Það getur verið erfitt að velta fyrir sér tilvist sinni á þeim svartsýnislegu, misantrópísku nótum sem bækur eins og Sagan um augað eftir Georges Bataille, Maldoror eftir Lautreamont, Öreindirnar eftir Michel Houellebecq eða “Justine” og “Juliette” eftir de Sade fá mann til að gera. Það er eins og maður sjái “vandamálið” sem felst í tilveru manns, en maður getur ekki orðað spurninguna sem kviknar.

Ég geri ráð fyrir að lesendur mínir séu vel menntaðir og hafi kynnt sér múmínálfana í þaula, og kannist við ákveðna persónu í bókunum, bísamrottuna. Hún bjó undir brúnni og átti sér eina bók, er bar titilinn “Um tilgangsleysi allra hluta”. Höfundur þessarar bókar gæti, ef út í það yrði farið, vel verið einn hinna ofangreindu höfunda.

Um er að ræða vonleysislegan existensíalisma, hið tilfinningalega svartnætti sem færist yfir þegar vitsmunirnir hafa lent í blindgötu.
Um er að ræða það tilfinningalega uppnám og vitsmunalega bjargarleysi sem gerir fólk sem er klárt í kollinum viðkvæmt fyrir trúarbrögðum, siðferðiskennd, vegetaríanisma og öðru rugli.
Fyrst skynsemin virkaði ekki, hví ekki að leggja á flótta inn í eitthvað sem er greinilega óskynsamlegt og forðast hið raunverulega, stóra spursmál? Hyldýpið sjálft?

Nietzsche hitti naglann ærlega á höfuðið í hinni frægu setningu um að þegar maður starir í hyldýpið starir það á mann líka. Það er enginn flótti undan þessu “augnaráði”, hinni þrúgandi vissu um algera óvissu og skort á vitsmunalegri kjölfestu. Engin flóttaleið er fær sem inniheldur ekki á einhverju stigi afneitun.
Skilningur vaknar á því að verkefnið að vera til er hverjum sem er ofviða.

En ef ég skrifa bók sem fjallar um líka hluti og í ofangreindum skítaskruddum, mun hún ekki bera sama nafn og bók bísamrottunnar, sem er einum of gildishlaðið fyrir minn smekk, þótt nákvæmt sé. Um óendanleika allra hluta væri titill sem félli mér betur í geð. Og þar sem titillinn hefði að geyma allt það efni bókarinnar sem hægt er að gera skiljanlegt, myndi ég láta eina tóma síðu nægja.
Því sannleikann er ekki að finna í bókum. Ekki einu sinni góðum bókum, með eða án grófra kynlífs- og ofbeldislýsinga. Það er búið að gá.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?