föstudagur, júlí 28, 2006

Þjófnaður og ríkisvald.

Við nánari skoðun á því sem flokkað er sem afbrot í nútíma samfélagi er mjög greinilegur munur á ástæðum og réttlætingu þeirrar skilgreiningar.
“það er ljótt að stela”, sem er fagurfræðilegt, siðferðislegt eða trúarlegt viðhorf, víkur við nánari skoðun fyrir Hobbes-ískri vænisýki og ótta við það ástand sem lýst er með heiti þessarar bloggsíðu.

Vörn eignar, sbr. síðustu færslu mína, hefur færst frá eigandanum sjálfum. Nútímaríkisvald hefur einkarétt á vörn eignar. Allar leiðir sem maður getur farið til að verja eign sína er skilgreind út frá því sem ríkið viðurkennir, leyfir eða framkvæmir. Ofbeldi gagnvart öðrum er aðeins bannað vegna meginreglna sem ríkið setur, og líkamleg valdbeiting í sjálfsvörn er leyfileg af þeim hinum sömu ástæðum.
Samfélagssáttmálinn sem áður er nefndur snýst um það að allir láti draga úr sér tennurnar og græði þær í þennan Levíatan sem ríkið er. Þetta er eins konar friðarsamningur í stríði allra gegn öllum.

Þessi sameiginlega hræðsla við að verða sviptur eign sinni er dæmi um fyrirbæri sem vel er lýst í samræmi við notkun Durkheim á hugtakinu samfélagsvitund (hugmyndin er reyndar fengin frá Rousseau), sem gleypir einstaklingsvitund mannsins í konservatífum samfélögum.

Ríkisvald, og þær óskráðu reglur og innræting sem áðurnefndum samfélagssáttmála fylgir, eiga það sameiginlegt að byggjast á hræðslu, þeirri hjarðeðlisblönduðu pre-emptífu nauðvarnarhyggju sem er til marks um hugarfar bráðarinnar, ekki þess rándýrs sem maðurinn er oft talinn vera.
Þegar maður sem “á” mikið þarf ekki að standa straum af kostnaði og þola þá fyrirhöfn sem því fylgir, og þegar slíkur maður er varinn af ríkisvaldinu, er ríkisvaldið að stela peningum frá öðrum með skattlagningu sinni til að viðhalda ákveðnu ástandi, því að ekki sé hægt að fá niðurstöðu um hvort viðkomandi geti raunverulega varið eign sína.

|

þriðjudagur, júlí 04, 2006

Rjettur og náttúra.

Orðið réttur er að mínum dómi notað í of miklum mæli, og mjög illa misskilið, þegar rætt er um tilvist mannsins og þess sem í kringum hann er. “Réttur” er í raun orð sem felur það í sér að maður hafi þegar samþykkt þá reglu sem hinn svokallaði “réttur” byggist á. Ég hef áður ráðist á hugmyndir um náttúrurétt á þessum forsendum hér á síðunni.

Svo að ég lýsi mínum skoðunum á “réttindum” aftur:
Einstaklingur getur ekki haft réttindi sem hann getur ekki varið.

Svo ég skýri þetta nánar:
Ef maður er drepinn, er það til marks um að hinn verjanlegi “réttur” hans til lífs hafi, á þeim tíma sem hann var drepinn, ekki verið til staðar, þ.e. hann gat ekki varið sig á fullnægjandi hátt, og að einhver eða eitthvað hafi nýtt sér það, meðvitað eða ómeðvitað, til að binda endi á líf viðkomandi.
Ef maður getur ekki varið það sem maður lítur á sem eign sína, er það ekki eign viðkomandi lengur við þann atburð sem sviptir hann henni. Kann að virðast augljóst, eða mótsagnakennt.

Þegar maður kaupir eitthvað af öðrum manni, er það gagnkvæmur gerningur hvors um sig, þess efnis að verja ekki tiltekna “eign” sína fyrir hinum. Sú tæknilega, líkamlega og/eða hugarfarslega aðgerð sem framkvæmd er í framhaldi af eða í samræmi við þennan gerning, er ekki í andstöðu við þennan grundvöll eignarhalds- og eignatilfærslu, þ.e. um vörn hlutar eða skort þar á.

Það sem ég er að fara með þessu er að það eina sem getur talist “náttúrulegt” við eignarhald á hlut er það sem ég lýsi hér fyrir ofan og ýmsum kann að virðast villimannlegt.

Sá sem “á” meira er sterkari en sá sem “á” minna. Hann á meira undir sér.
Um er að ræða þann styrk að geta helgað sér miklu meira en flestir aðrir og varið það, en það er einmitt fyrirbærið auðvald, sem vinstrimenn nefna með mikilli siðferðislegri vandlætingu og fyrirlitningu.

Lög um eignarhald, skráð eða óskráð, og gagnrýnislaus viðurkenning á “eignarrétti” er fyrirbæri sem er fundið upp síðar, þegar fólk telur sig loksins hafa eitthvað þarfara að gera en að gæta eigna sinna og verja þær.
Eignarréttur í nútímamerkingu er þannig einungis ráðstöfun sem gerð er í skyni tímasparnaðar og hægðarauka, þar sem það er litið á það sem gefið að eigandinn geti varið eignina.

Lesendum mínum bendi ég á að þetta er hinn raunverulegi “samfélagssáttmáli”, sem er talsvert frábrugðinn Hobbes og Locke, sem voru að mínu mati of uppteknir af miðstjórnarvaldi, og sáu ekki skóginn fyrir trjánum.

Þetta er alger beinagrind hjá mér. Frekari útlegginga og útskýringa er þörf, sem ég mun vonandi hafa tíma til að birta sem fyrst. Eitthvað ætti þetta blogg að lifna við í framhaldi af þessu.
Næst mun ég tala um eðli þjófnaðar og ríkisvalds, en ég á eftir að pússa það betur.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?