þriðjudagur, ágúst 22, 2006

GNNNAARRRGH!

Ég verð að viðurkenna að það fer gríðarlega í taugarnar á mér þegar ég er sakaður um að reyna að niðurlægja viðmælanda minn eða setja mig á háan hest með því að nota flókin orð og slettur sem viðkomandi skilur ekki.

Nær væri fyrir viðkomandi einstaklinga að vera ánægðir með að ég tali við þá eins og fullorðna manneskju, frekar en að ég umli eitthvað mónósyllabískt um knattspyrnu með aulaglott á vörum.

Ég verð mjög oft fyrir vonbrigðum með annað fólk. Afleiðing þess er sú misantrópía sem engum dylst í fari mínu. Hins vegar geri ég mér fyllilega grein fyrir því að mín áhugamál eru vægast sagt mjög sértæk og fáir setja sig inn í þau.

Þegar ég tala um flókna hluti er það til marks um að ég hafi trú á því að viðmælandi minn hafi forsendur til að skilja hvert ég er að fara. Það er ekki til þess að gera lítið úr viðkomandi. Álit mitt á viðkomandi minnkar ekki við það að fólk skilji ekki hvert ég er að fara. Hins vegar hrynur fólk í áliti hjá mér við það að segja “þú ert að setja þig á háan hest” fremur en “ég skil þig ekki”.

Ef fólk hefur einhverja minnimáttarkennd gagnvart mér er það þess eigið mál. Ekki gagnrýni ég fólk upp í opið geðið á því vegna þess hefur eytt mótunarárum sínum í að horfa á “Friends”. Hins vegar hef ég hina megnustu óbeit á óuppdregnum, alþýðlegum fáfræðihroka sem ég verð alltof, alltof oft fyrir barðinu á.

|

fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Hinn fúsi og frjálsi vilji? Ayn Rand og Hobbes.

Ayn Rand lét út úr sér margt um dagana, og það sem hún sagði og skrifaði var mjög misjafnt. Það sem stingur mig helst í augun er það að fylgismenn Ayn Rand gefa sig svo oft út fyrir að vera einhverjir sérstakir “frjálshyggjumenn”.

Skoðanir Ayn Rand, ef marka má verk hennar og heimasíðuna aynrand.org voru meðal annars þess efnis að enginn skuli fórna sér fyrir annan mann, og að enginn skuli fórna öðrum fyrir sig sjálfan. Þetta fyrirkomulag er kallað “rational self-interest”.

Rökin sem færð eru fyrir þessu er að þetta sé einhvers konar “náttúrulegt ástand”, að þarna sé einhvers konar “quid-pro-quo”-samband sem sé nauðsynlegt.
Þarna er maður einfaldlega kominn út í Hobbes gamla, fyrir utan það að Hobbes er ekki að blanda náttúrunni inn í þá nauðsyn sem hann telur vera fyrir lögum og reglu. Í hugmyndum Hobbes felst beinlínis að það sé náttúrulegt ástand mannsins að vera adversarial, en ekki kóoperatífur, komist hann hjá því.

“Náttúran” er, eins og ég hef áður vikið að á síðunni, einstaklega algengt tæki til að vísa í þegar maður er búinn að mála sig út í horn og er kominn í vandræði. Ef maður getur ekki fært rök fyrir einhverju er mjög auðvelt að afskrifa þörfina fyrir rök með því að kalla viðkomandi fyrirbæri eða ástand “náttúrulegt”.

Er það “náttúrulegt” að forðast það að skaða aðra? Er það að sama skapi hægt á “náttúrulegan” hátt að komast hjá því að fórna öðrum fyrir sjálfan sig? Hvernig er eiginlega mögulegt að haga sér á “ónáttúrulegan” hátt?

Hvernig er laissez-faire kapítalismi mögulegur án þess að maður geti gengið á hagsmuni annarra? Hvernig kemst maður hjá því að svipta aðra frelsi ef fyrirbærið “samningur” er til? Hvernig í ósköpunum getur maður talist frjáls ef hann má ekki svipta aðra frelsi?

Með öðrum orðum er þarna komin ný tegund af frelsi, “rational” frelsi, sem snýst í stuttu máli um ófrelsi.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?