miðvikudagur, desember 20, 2006

Jólastress.

Yfirleitt er seinni hluti desember fremur daufur tími í fasteignasölum á Íslandi. Ekki þetta árið hjá okkur. Nú stend ég frammi fyrir því að þurfa að vinna eins og óður maður fram að Þorláksmessu. Og þurfa að rífa mig úr vinnu til að mæta í jólaboð milli jóla og nýárs. Og þurfa að vorkenna sjálfum mér vegna þessa.

|

mánudagur, desember 11, 2006

Rumpulýður og hámenning

Það sem almenningur lætur sér vel líka er yfirleitt fremur ruddafengið og vanþróað, oft fyrirbæri sem ekki útheimta neitt óþægilegt af neytandanum eins og smekk eða menntun. Ég lít svo á að orðið fjöldamenning sé mótsagnakennt. Maður getur haft fjölda, eða maður getur haft menningu. Maður getur ekki haft hvort tveggja á sama stað á sama tíma. Með því að bæta “ó” inn í fjöldamenninguna er maður nákvæmari í termínólógíu.

“Brauð og leikar” að rómverskum sið eru nauðsynlegur hlutur til þess að halda múgnum í skefjum. “Fjöldaómenning” nútímans er einstaklega hentugt tæki til að gera lýðinn óskaðlegan. Það að gera þetta að neysluvöru og iðnaði, í stað ríkisstyrkts eða demagógísks óskapnaðar, var hreinasta snilld á sínum tíma og sú desentralísering valds sem því fylgdi var mjög til batnaðar.

Á meðan skilyrði voru fyrir því að lágmenning blómstraði, fylgdi hámenningin ekki með. Hún lognast út af, hægt og rólega, þar sem meðan ríkið sér um að fjármagna hana að svo miklu leyti sem raun ber vitni þarf að hlíta reglum um jafnræði, jafnrétti og þess háttar, og hið opinbera má, eðli málsins samkvæmt, ekki gefa út neina opinbera skoðun um það hvað er gott og hvað slæmt í þeirri hámenningu sem hún styrkir, þar sem þá væri of auðvelt að líkja því við Sovétríkin.

Því miður er sinfónían ríkisstyrkt, svo og listasöfn og fleiri áþekkir hlutir. Vinstrisinnað listafólk óskapast síðan yfir því hvað hægrimenn séu vondir að vilja ekkert með þetta hafa á fjárlögum.

Þetta er leiður misskilningur. Í raun er það múgurinn og vinstrimenn sem standa í vegi fyrir því að hámenning geti blómstrað á sama hátt og lágmenningin gerir. Listafólk misskilur oft eðli stéttar sinnar, en stéttin á mun meira skylt við verslun og þjónustu en þann hráaiðnað, “sköpun”, sem oft er mikið látið með af þessa fólks hálfu þegar það reynir að gera sig merkilegt í augum annarra.

Staðan er sú að nú á dögum er ríkt fólk ekki nógu ríkt til að eyða peningum í hégóma á borð við það sem Michelangelo, Haydn o.fl. voru fengnir til á sínum tíma. Ríkt fólk þarf þar af leiðandi að verða (a.m.k. relatíft) mun ríkara en það er nú til að svona lagað þrífist.

Forsenda lágmenningar er sú að það sé til fullt af heimskingjum sem þarf að skemmta, en forsenda hámenningar er misskipting, það að ríkir einstaklingar láti skemmta sjálfum sér, og með sósíalískum, húmanistískum hugmyndum eins og t.d. jafnræði og jafnrétti er verið að eyðileggja skilyrðin fyrir því að slík starfsemi geti þrifist. Með óheftri frjálshyggju og auknu efnahagslegu frelsi einstaklingsins er því verið að tryggja tilvist hámenningar til frambúðar, en með ríkisstyrkjum og metnaðarleysi á borð við núverandi ástand er verið að drepa hana á hægan, kvalafullan hátt.

Óheft misskipting getur valdið því að umræddir atvinnuvegir blómstri sem aldrei fyrr. Því ætti listafólk að vera í auknum mæli til hægri í stjórnmálum en nú er.
Megi svo verða.

|

miðvikudagur, desember 06, 2006


Nafnspjöld

Andskotans hryllingur.

Ég hefði kannski átt að rjóða hægðum/brúnkukremi um vit mér og nota kynstrin öll af tannbleikiefni áður en ég lét smella af...

|

þriðjudagur, desember 05, 2006

Tvær smáar hugleiðingar

1. Altrúistískar “hetjur” – er þetta í rauninni til?

Eitt það hlægilegasta fyrirbæri sem finna má í kristinni heimsmynd er einmitt altrúisminn. Það að bjóða fram hinn vangann. (Aldrei hlusta á prest tala um nauðganir!)

Þegar maður sýnir mikið lítillæti, eða lifir meinlætalifnaði, er það ekki endilega til marks um að viðkomandi sé að meina eitthvað mikið með því sem slíku. Viðkomandi er oftar en ekki einfaldlega að lyfta sér upp á einhvern stall, sýna að hann/hún sé heilagri en allir aðrir. Það að gera sjálfan sig merkilegan og alla aðra ómerkilega. Og grundvöllur þessa er svo mikið óöryggi. Þetta er í rauninni svona scorched-earth taktík mannsins gagnvart sjálfsmynd sinni. “Ekki láta aðra vaða yfir þig. Vaddu yfir þig sjálf(ur)”.

Fólk sem meinar eitthvað annað með altrúisma en að sýna sig eru að mínu mati alger fífl, og þeir sem eru að sýna sig með því eru hræsnarar. Móðir Teresa. Gandhi. Snikkarinn frá Galíleu. Allt saman fólk með ofboðslegt egó. Fólk sem lifði meinlætalifnaði eða fórnaði sjálfu sér, og gerði það sjálfu sér til dýrðar og engum öðrum.

Hið altrúistíska “andlag” kemur nefnilega frá altrúistanum sjálfum. Dæmi um það er að “samviska” manns sé friðuð, að manni finnist sem maður sé betri manneskja fyrir vikið, eða jafnvel kynferðisleg upplifun. Eins konar góðmennsku-samviskurúnk.
Ojbara.


2. “Gjafir”.

Það að gefa án þess að þiggja er mjög sjaldgæft, sjaldgæfara en flestir átta sig á. Ekkert er ókeypis. Þegar um er að ræða fyrirbæri sem er “gjöf” (skiljist í víðtækari merkingu en venjulega) er nánast alltaf búist við einhverju í staðinn. Andlagið er ekki endilega efnislegt, heldur oft eitthvað huglægt, stundum bara sálrænt. Þetta hef ég minnst á áður. Það sem kemur í staðinn þarf stundum ekki að vera meira en að viðkomandi brosi og segi takk, eða bara kinki kolli. Eða gleðjist auðsjáanlega.

Það að þiggja án þess að gefa er líka sjaldgæft. Fæstir gera það í stórum stíl, nema um sé að ræða mjög sjúka einstaklinga. Bros eða “takk” er endurgjald líka, þótt lítið sé og ódýrt. Með því að vanrækja þetta er maður sjálfum sér verstur. Það er svolítið eins og að borga ekki reikningana sína. Leiðindi í langan tíma, sem lýkur með félagslegu gjaldþroti.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?