þriðjudagur, janúar 23, 2007

Fangelsismálastofnun, hið raunverulega dómsvald í íslenskum refsimálum?

Þegar dómstólar dæma mann til fangelsisvistar er líklegt að hinn dæmdi þurfi ekki að afplána nema helming, eða 2/3 hluta, refsingarinnar. Þetta fyrirbæri kallast reynslulausn, eins og flestum mun kunnugt.

Dómstólar veita ekki reynslulausn. Það gerir stofnun sem sett er undir dómsmálaráðherra. Með þessu er hin margrómaða þrískipting ríkisvalds virt að vettugi. Þegar dæmdum fanga er veitt frelsi og refsingunni breytt úr því að vera fangelsi í það að vera skilorð er það dómur, ekki stjórnvaldsákvörðun. (ef ekki er hægt að stinga mönnum í fangelsi með stjórnvaldsákvörðun, er eðlilega ekki hægt að sleppa manni úr fangelsi, og ógilda þannig dóminn, heldur.)

Með því að framkvæmdavaldið tekur ákvörðunina, stjórnsýsluákvörðun, eru hinar rúmu reglur stjórnsýsluréttar látnar gilda um það þegar fangi vill komast út. Jafnræðisregla, meðalhófsregla, allt heila klabbið.

Nú spyr ég (út í loftið, eins og venjulega):
Af hverju er ekki settur upp sérstakur dómstóll þar sem ákvörðun um reynslulausn er tekin? Er það skilningurinn að framkvæmdavaldið sé dómsvaldinu æðra, og geti á þennan hátt endurskoðað úrlausnir þess?
Af hverju eru ákvarðanir náðunarnefndar ekki birtar eins og aðrir dómar? Af hverju er málsmeðferð stjórnsýsluréttarlegs eðlis þegar ákvörðunin er tekin, en ekki réttarfarsleg?
Og síðast en ekki síst: Þar sem rökstuðningurinn fyrir einkaleyfi ríkisvaldsins á refsingum er sá að annars taki menn “réttlætið” í eigin hendur, hvers vegna fær þá brotaþoli ekki tækifæri til að andmæla reynslulausninni?

|

sunnudagur, janúar 21, 2007

Af álagningu á munaðarvöru. Hinn meðvitaði neytandi Úlfur Sveinbjarnarson.

Heildverslun nokkur hér í bæ selur eina vörutegund í smásölu. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema fyrir það að þegar maður kaupir beint af heildsölu nýtur maður þess að sjálfsögðu að hafa ekki einhvern óþarfa millilið til staðar sem leggur á vöruna. Þessi ágæta heildverslun flytur inn Kúbuvindla, og er nokkurn veginn eini staðurinn á landinu þar sem hægt er að kaupa þá af einhverju viti.

Hins vegar er það svo, eins og lesendum þessa er væntanlega ljóst, að til er fyrirbæri sem kallast “internetið”, og er þeirrar náttúru að hægt er að kaupa nokkurn veginn hvað sem er, hvaðan sem er.

Hjá þessari ágætu heildverslun kostar eitt stykki Cohiba-vindill af stærðinni “Siglo VI” heilar 3.150 íslenskar krónur í dag (sbr. heimasíðu hennar).

Hér til hægri er tengill er nefnist “Don Gabriel”, er vísar á heildsala staðsettan á Gíbraltar. Gíbraltarfyrirtækið selur sama vindil á rúmar 18€, sem er ca 1.630 krónur ef miðað er við að evran sé 90 krónur. Þegar búið er að flytja vindilinn til landsins frá Gíbraltar kostar hann undir 2.500 kr. (á hann leggst tóbaksgjald, tollur og virðisauki).

Það að úrvalið er mun meira hjá Don Gabriel (og það sem ekki fæst þar fæst hjá annaðhvort pablamos eða cigarone.com.) og það að maður sparar að jafnaði 300-600 krónur per stykki af þessu þegar maður kaupir þetta að utan, veldur því að ég hef ekki þurft, eða langað mikið til, að skipta við þennan ágæta heildsala.


|

mánudagur, janúar 15, 2007

Svartagall. Sein und Altruismus.

Fáir hlutir eru sterkari en tilvistarkreppa þess manns sem uppgötvar að það sem honum hefur verið kennt er kjaftæði, og það hefur allt verið til einskis sem viðkomandi hefur gert fram að því.
Eftir slíka uppgötvun upplifa margir sig sem týndar sálir, líkar þeim sem lýst er í undirheimaför Ódysseifs í kviðu Hómers.

Hin eðlilegu viðbrögð fólks eru að skilja ekki fullkomlega við það sem það er alið upp við. Þetta veldur því að fólk tekur upp á því að “göfga” sjálft sig á Freudískan hátt, og gefur t.d. Mæðrastyrksnefnd og Byrginu peninga til þess að kaupa sér betri samvisku gagnvart eigin bakgrunni en því finnst það hafa. Þótt undirstaða þessa fólks sé sandur, og það veit það innst inni, hagar það sér samt í samræmi við þessa undirstöðu.

Sumir gerast hedónistar, aðrir bísamrottur, enn aðrir verða svona, eða kannski blanda af öllu þessu.
Munurinn á því að “lifa” í fáfræði sinni, og að “vera til”, meðvitaður um það að líf manns er byggt á sandi, er það sem greinir á milli þess hvort fólk er hugsandi eða ekki.

En er þá mögulegt að vera hamingjusamur og hugsandi?
Jú, ég held að í eitt skipti á sinni löngu ævi hafi Bertrand Russell hitt naglann á höfuðið, og sýnt þannig að honum var ekki alls varnað, þegar hann sagði:
“The secret of happiness is to face the fact that the world is horrible, horrible, horrible.”

Þegar heildarlausn (þessi andstyggilega “Endlösung”, lesist í historísku samhengi) á því hvernig veröldin er, reynist vera kjaftæði, stendur eftir lítilfjörleg einstaka ánægja, oft bara lítil, eða bara materialísk. Það eina sem maður getur gert, annað en það að finna sér eitthvað annað til að “trúa á”, er það að horfast í augu við það hvað tilvist manns er hlægileg og tilgangslaus, og að öll Nietscheísk sjálfsupphafning leiðir einungis til þess að maður er hlægilegri í hlutverki sínu sem trúðurinn sem dettur á rassinn í lok sýningar.

En er það ekki bara ágætt? Það að vera ófyndinn trúður væri að minnsta kosti óbærileg örlög.

|

föstudagur, janúar 12, 2007

Framsóknarmennska og sunnlenskir þingmenn/þingmannsefni.

Það sem Bjarni Harðarson, þingmannsefni, gerði í grein sinni í Mogganum í dag var að hann staðfestir, væntanlega óvart, að byggðastefna er í senn óskynsamleg og andvitsmunaleg, og það sem meira er, hann setur sjálfan sig vísvitandi upp sem einhvers konar kyndilbera irrasjónal sveitarómantíkur.

Annars ætti ég ætti ef til vill að senda Bjarna sérstaka þakkarkveðju, þar sem hann hefur staðfest það fyrir mér endanlega að Framsóknarflokkurinn stendur fyrir allt sem ég fyrirlít í íslenskri pólitík.

Vart þarf að taka fram að sveitamenn af þessu tagi, með stjörnur í augunum, eru alfarið ónæmir fyrir rökum, enda treysta þeir bara á brjóstvitið. Annað mál er það hvort þeir séu æskilegir málsvarar okkar hinna, eða hvort hægt sé að ætlast til þess af íbúum suðvesturhornsins að þeir viðurkenni umboð þessa fólks til að taka ákvarðanir fyrir okkar hönd.

Mikilsverðasta mál íslenskrar pólitíkur er nefnilega að skilja á milli fjárlaga höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar, svo að misvitrir bændadurgar við Austurvöll komist ekki með skítugar krumlurnar í peningana okkar.

|
Eitt lítið hýpóthetískt dæmi.

“Diss”-kleimer
Tek fram að eftirfarandi er að sjálfsögðu bara hýpóthetískt, og ef eitthvað á við atvik eða persónur í hinum efnislega heimi er það að sjálfsögðu *alger* tilviljun. Enda er þetta allt saman hýpóthetískt.

Setjum nú sem svo, hýpóthetískt, að til hafi verið embættismaður. Köllum hann X. Þessi maður, X, var yfirmaður ríkisstofnunar, er látinn fyrir nokkrum árum, og á sér afkomendur.

Setjum nú sem svo, að gamall afdankaður pólitíkus, sem við skulum kalla Y, láti þau orð falla, hýpóthetískt auðvitað, á opinberum vettvangi að X hafi verið “alræmdur”.

Y lætur, hýpóthetískt, ósagt að:
a) Þegar X var yngri var hann í nasjónalsósíalískum stjórnmálaflokki, og tók virkan þátt í starfi hans.

b) Oft eru tekin dæmi úr embættisfærslu X um misbeitingu hýpóthetísks fyrrum ráðherra, Z, á ríkisvaldinu til persónulegra ofsókna gagnvart pólitískum andstæðingum sínum, þar með talið ólögmætar handtökur, fangelsanir o.þ.h.

c) Þegar X var embættismaður brenndi hann skjöl er vörðuðu eigin embættisfærslu, ef marka má grein eftir hýpóthetíska sagnfræðinginn Þ. Víðast hvar í heiminum þar sem embættismannakerfi er rótgrónara og meiri hefð er við lýði þykir þetta vera grafalvarlegt brot í starfi, og víðast hvar varðar þetta brottvikningu og jafnvel fangelsisvist.

Setjum nú sem svo, hýpóthetískt, að afkomendur X móðgist mjög við ummæli Y og hyggist höfða meiðyrðamál gegn honum.
Væri ekki líka eðlilegt að afkomendur X höfði einnig meiðyrðamál gegn sagnfræðingnum Þ?

Væri ekki eðlilegra, hýpóthetískt, að afkomendur X sendu Y sérstakt þakkarbréf, þar sem þeir þakka honum fyrir að rökstyðja ekki orð sín frekar en raun varð á?

Mér finnst að við þessar aðstæður ættu afkomendur bæði X og Z að láta lítið fyrir sér fara og reyna ekki að beita ríkisvaldinu fyrir sig á jafn aumkvunarverðan og lítilmannlegan hátt og hýpóthetískir feður þeirra voru þekktir fyrir að gera.
Það yrði nefnilega ekki í þágu minningar þessara hýpóthetísku manna að kafað væri dýpra í fortíð þeirra, eins og fyrirsjáanlegt væri að gert yrði í hýpóthetísku meiðyrðamáli, og er ef til vill ástæða þess að sonur Z hefur hýpóthetískt haldið leyndum opinberum skjölum er varða föður sinn.

|

miðvikudagur, janúar 10, 2007

Ríkisstarfsmenn, báknið og ráðuneytin (eða ljónið, nornin og skápurinn)

Ísland hefur tækifæri til að gera hluti sem ekki er algengt að hægt sé að framkvæma.

Atvinnuleysi á Íslandi virðist að mestu einskorðast við þá sem falla í flokkinn “unemployable”, og skortur er á vinnuafli, sem þýðir að fækkun ríkisstarfsmanna er ekki eins pólitískt hættuleg aðgerð og hún væri víða annarsstaðar. Þetta merkilega svigrúm hefur hins vegar hingað til ekki verið nýtt nægilega vel til að skera niður ríkisapparatið.
Það er kannski ekki furða, þar sem flest frumvörp eru samin af ráðuneytisstarfsmönnum, sem eru að sjálfsögðu ríkisstarfsmenn. Sem sjá um sína. Og sjálfa sig, því ekki er hægt að búast við því að þeir reki sjálfa sig úr vinnunni. Eða skeri niður eigin fjárveitingar.

|

mánudagur, janúar 08, 2007

"Rant" um efnahagsmál

Mikið er verið að rugla um í fjölmiðlum um “efnahagsstjórn”. Af hverju á að vera stjórn á þessu? Er ekki bara hægt að leggja krónuna niður, og svo getur fólk notað það sem það vill, hvort sem það er dollari, evra, svissneskur franki, jen, yuan eða fiskflök? Fólk er hér við völd sem predikar viðskiptafrelsi, en hefur efnahaginn í svo föstum skorðum að það er engu lagi líkt, maður þarf að fá launin sín í einhverjum óstöðugasta mikkamús-gjaldeyri sem fyrirfinnst, þökk sé einhverri furðulegri stjórnunaráráttu þeirra, ýktum hugmyndum um eigið mikilvægi og gersamlega úreltum hugmyndum um hlutverk ríkisvalds.

Þegar ég sá í stefnuskrá Frjálshyggjufélagsins að það vildi einkavæða seðlabankann skellti ég uppúr. Það sem á að gera við seðlabankann er að það á að leggja hann niður. Ekki einkavæða batterí sem ekki á að vera til sem slíkt. Einkaleyfi á ákveðnum viðskiptagerningum, eins og seðlabankar hafa, eiga ekki að þekkjast fremur en önnur einkaleyfi sem ekki byggja á höfundarrétti. Þær sögulegu aðstæður sem leiddu til þess að “bankar bankanna”, eins og þeir eru kallaðir, urðu ríkisapparöt, eru ekki lengur til staðar, og þær aðstæður þættu tæplega vera nægileg röksemd fyrir slíkri ráðstöfun nú á dögum. Eftir stendur því að bankar, sama hvers eðlis þeir eru, eiga ekki að vera á neinn hátt háðir ríkinu.

Og af hverju ættu ekki að vera til fleiri seðlabankar en einn?

|

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Um tóbak.

Ég læt mér nægja að lýsa yfir að munurinn á sígarettum og vindlum er sá sami og munurinn á þessu og þessu.

Hananú.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?