þriðjudagur, maí 08, 2007

Lífsreynsla

Klukkan er 16:30. Undirritaður situr í makindum á skrifstofu sinni miðsvæðis í Reykjavík, sötrar espressó og kreistir gula “stressboltann” sinn, sem er úr gúmmíi en eigandi hans ímyndar sér að sjáfsögðu að hann sé jarðarkringlan sjálf.

Síminn hringir, og undirritaður tekur upp tólið.
Ú.S.: “Fasteignasalan Borgir, góðan dag. Úlfur hér.”
B: “já, er “X” við?”
Ú.S.: “ Því miður ekki, "X" hefur ekki unnið hér í nokkur ár.”
B: “Nú jæja. Ég er sko að hringja fyrir Framsóknarflokkinn, og er að reyna að ná í félagsmenn…"
Ú.S.: “…”
B: "...Ert þú nokkuð framsóknarmaður?”

Samkeppni:
Notið ímyndunaraflið til að ljúka samtalinu í kommentakerfinu hér fyrir neðan. Sigurvegarinn hlýtur að launum gulan "stressbolta".

|

mánudagur, maí 07, 2007

Kosningar

Sjálfstæðisflokkurinn inniheldur of margs konar skoðanir. Þegar flokkur er svo stór að innan vébanda hans séu í senn kristilegir íhaldsfauskar sem eru á móti fóstureyðingum (t.d. Árni Johnsen og fleiri sem eru, ólíkt honum, nógu klárir til að vera ekki að auglýsa það of mikið opinberlega), og hins vegar frjálshyggjumenn (sem yfirleitt eru kveðnir í kútinn af öðrum flokksmönnum), vaknar sú spurning hvort maður sé með atkvæði sínu ekki að styðja fólk til valda sem manni finnst fremur að ætti að láta fá sér heiðarlega vinnu. Það að flokkurinn skuli vera í sama þreytulega miðjumoðinu og allir hinir er hrein og bein móðgun við marga kjósendur hans.

Flokkur sem hefur arfleifð Ólafs Thors (sem að mínu mati var hreinlega sósíalisti), Bjarna Ben eldri (sem hefði ráðist inn í Pólland, hefði hann getað það) og Ingólfs Jónssonar frá Hellu (sveitafasista og kryptó-framsóknarmanns), þarf virkilega að halda á spöðunum ef taka á hann alvarlega sem einhvers konar kyndilbera sjálfstæðis og einstaklingsfrelsis á 21. öldinni. Á því kjörtímabili sem nú er að ljúka hefur flokkurinn ekki gert það, og þótt vissulega sé að vissu marki hægt að kenna framsókn um, er það hvergi nærri því nóg. Mér dettur ekki í hug að styðja flokk sem er svo latur við að minnka útgjöld ríkisins og lækka skatta við núverandi aðstæður sem raun ber vitni.

Það blasir því við að þeir sem eru í efnahagsmálum hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn hafa nákvæmlega ekkert til að kjósa. Ég get ekkert kosið á laugardaginn, og mun því sitja heima.


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?