þriðjudagur, júlí 24, 2007

Sein und Moralvorstellung

Það er okkur öllum sameiginlegt að það sem skilgreinir okkar tilvist er það að við erum einstaklingar. Ég er ekki margir einstaklingar. Aðeins einn. Slíkt hið sama gildir um þá sem þetta kunna að lesa.

Ef við samþykkjum þessa fullyrðingu, að hver einstaklingur sé aðeins einn einstaklingur, en ekki margir, vakna ákveðnar spurningar um það hvað það þýðir að vera einn, en ekki margir.

Þýðingin er meðal annars sú að heimurinn snýst í kringum mann. Maður getur ekki séð veröldina með annars manns augum. Kringumstæður manns hljóta að vera túlkaðar út frá manns eigin forsendum.

Einnig er þýðingin sú að maður er máttlaus. Maður er einn og maður er takmarkaður.

Svo sannarlega getur einn maður aðeins gert tilvist ákveðins fjölda fólks bærilegri, svo sannarlega getur einn maður aðeins aðstoðað ákveðinn fjölda fólks, og það sem meira er, einn maður getur aðeins sett sig tilfinningalega í spor ákveðins fjölda fólks.

Það sem ég er í rauninni að fara með þessu er að með því að ætla að gera alla hamingjusama, finna upp eða koma í kring einhverju skipulagi eða byltingu sem umlykur alla heimsbyggðina sterku, hlýju faðmlagi góðs vilja og mannvináttu, áorkar maður ákaflega litlu gagnvart þeim sem eru manni fjarri, og á sama tíma á maður á hættu að vanrækja þá sem standa manni næst. Geta manns í þessum efnum takmarkast nefnilega af tilvist manns sjálfs sem einstaklings.

Þetta er ein af ástæðum þess að ég er einstaklingshyggjumaður. Það að ætla að berja á vandamálum alls heimsins með einhverju óljósu barefli, eins konar mórölskum kodda, er í senn heimskulegt og beinlínis hjákátlegt miðað við þau tækifæri sem felast í því að geta beitt sér af alvöru gagnvart því sem stendur manni nærri og þarfnast stuðnings.

Ef manni er svo umhugað um velferð annarra er það “dulce et decorum” að láta fjölskyldu sína og ástvini njóta krafta manns, ekki óljósa hagsmuni óljóss fólks.

Því fólk sem er langt í burtu og maður þekkir ekki er gagnvart manni óljóst. Og næsta nágrenni manns er í flestum tilvikum slíkt að venjulegur einstaklingur á fullt í fangi með það, jafn skýrt (eða óskýrt) og það kann að vera.

Þegar maður skilgreinir eigin pólitískar skoðanir er því fásinna að segjast hafa í huga hagsmuni heildarinnar. Slíkt er ómögulegt og hreinn barnaskapur, sem kemur frá fólki sem metur viðurkenningu fjarlægra einstaklinga of mikils og nýtur hennar of mikið, og fylgispekt við slíka fásinnu er algengur misskilningur meðal þess fólks sem ekki hefur íhugað það sem í henni felst, þ.e. ábyrgðarleysi gagnvart þeim kringumstæðum sem gjarnan eru nefndar “The Human Condition”, og fullkomið skilningsleysi sem beinist í senn að tilvist mælandans og þeirra sem á hlýða

Slíkur góðvilja-drullukökuleikur er fyrir neðan virðingu hugsandi fólks, líkt og svo mörg önnur dæmi um hræsni og kjánaskap sem felast í nútímalýðræði.


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?